147. löggjafarþing — 6. fundur,  26. sept. 2017.

almenn hegningarlög.

111. mál
[15:37]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki viss af því að ég á eftir að ræða við allsherjar- og menntamálanefnd hvort eitthvað sé hægt er að gera til þess að bæta þá réttaróvissu sem mér finnst af þessu hljótast, frumvarpinu eins og það liggur fyrir núna. Ég á eftir að fullvissa mig um að mér finnist þetta vera lögmæt skerðing. Ég á eftir að fara almennilega í gegnum það mat í höfðinu á mér og hvort þetta hugnist mér sem rétt leið í þessu máli. Það sem ég lagði fram í upphafi var í raun og veru sú aðferðafræði sem ég mun nota til þess að meta það. Ég mun taka athugasemdir hv. þingmanns um þann möguleika að við breytum svo bara engu í framtíðinni eftir það til gagngerrar skoðunar í því samhengi.

Hv. þingmaður spurði líka í fyrra andsvari sínu hvort mér hugnaðist það að endurheimt borgararéttinda yrði á einhvern hátt vélræn í raun og veru, sjálfkrafa, eins og hæstv. sitjandi forsætisráðherra lagði til áðan. Ég myndi segja að það færi virkilega eftir eðli brotanna hvort það ferli ætti að vera sjálfvirkt eða ekki. Eins og við höfum séð þá kann það ekki góðri lukku að stýra að skýla sér á bak við vélrænt kerfi sem kemur fram við alla jafnt. Mér finnst að þegar kemur að svona málum fari það algjörlega eftir því um hvaða starfsstétt er að ræða. Það fer algjörlega eftir því hvaða brot er um að ræða hversu mikil ábyrgð hins opinbera er á því að hleypa fólki að í svona stöður. Það fer eftir því hvernig maður braut af sér. Það fer eftir því hvaða starfi maður vill sinna. Mér finnst ekki sjálfgefið að það gerist sjálfkrafa að fólk geti t.d. byrjað að starfa með börnum eftir að hafa brotið á þeim eftir að tíu ár eru liðin. Er nóg að bíða bara í tíu ár og vona að þá sé það í lagi? Mér finnst að einhver í stjórnkerfinu hljóti að þurfa að bera ábyrgð á því að meta hvort það sé varhugavert að fólk fái að starfa í slíkum geira á ný.