147. löggjafarþing — 6. fundur,  26. sept. 2017.

kosningar til Alþingis.

112. mál
[16:06]
Horfa

Frsm. stjórnsk.- og eftirln. (Jón Steindór Valdimarsson) (V):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi um breytingu á lögum um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000, með síðari breytingum. Frumvarpið er lagt fram af stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í heild sinni og er full samstaða um málið í nefndinni.

Frumvarpið felur í sér að sett er bráðabirgðaákvæði um viðmiðunardag umsóknar um kosningarrétt. Tilefnið er okkur öllum ljóst.

Efnislega felur frumvarpið í sér að íslenskir ríkisborgarar sem búsettir eru erlendis verði teknir á kjörskrá ef þeir leggja fram fullnægjandi umsókn um kosningarrétt í síðasta lagi 11. október á þessu ári. Öðlast þeir þá réttinn til að kjósa við þær alþingiskosningar sem fyrirhugaðar eru 28. október á þessu ári.

Þeir sem þegar hafa sent inn fullnægjandi umsókn um kosningarrétt, sem átti að gilda frá 1. desember næstkomandi, öðlast á sama hátt kosningarrétt við komandi alþingiskosningar.

Frumvörp hliðstæðs efnis voru samþykkt 3. mars árið 2009 fyrir alþingiskosningar sem fóru fram 25. apríl sama ár og síðan 6. september árið 2016 fyrir alþingiskosningar sem fóru fram 29. október árið 2016.

Að öðru leyti vísast til greinargerðar með frumvarpinu, herra forseti. Lagt er til að málið gangi beint til 2. umr.