148. löggjafarþing — 7. fundur,  21. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[16:39]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Frú forseti. Svo það sé alveg á hreinu er ég ekki kategórískt á móti því að hækka ákveðin útgjöld ríkissjóðs. Ég held að það sé hægt að færa fyrir því skynsamleg rök og hef raunar haldið því fram, bæði hér og í skrifum, að það þurfi aukið fjármagn í heilbrigðiskerfið. Ég held að enginn deili um það. Ég óttast hins vegar að við séum að taka ákvörðun um að auka t.d. útgjöld í heilbrigðiskerfið án þess að fylgja því eftir með kröfum um þá þjónustu sem við viljum að sé veitt, að við séum ekki með réttu mælikvarðana á gæði þjónustunnar, hvorki í heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu né nokkru öðru. Ég vara við því að verið sé að auka rekstrarútgjöld ríkisins bara til þess að ýta undir einhverja hagsveiflu. Það skiptir verulega miklu máli í hvað fjármunirnir fara. Það er skynsamlegt núna að ráðast í arðbærar innviðafjárfestingar. Öll hagfræðileg rök benda til þess að það sé skynsamlegt, ég tala nú ekki um ef það er aðeins fyrir utan höfuðborgarsvæðið þar sem þenslan er einna mest.

Það er hins vegar líka viðurkennt að það að hækka eða lækka fjármagnstekjuskatt hefur auðvitað veruleg áhrif, m.a. á sparnað og sparnaðarhneigð og fjárfestingar. Lægri skattur kallar á hærri fjárfestingar. Lægri skattur kallar líka á aukinn sparnað og lægra vaxtastig. Það er þannig og það örvar efnahagslífið. Hvar hins vegar ballansinn er og hvar skynsamlegt er að setja prósentuna, hvort það er í 10, 15, 20 eða 22%, er önnur umræða. (Forseti hringir.) Við getum tekið hana. Ég er ekki viss um að 22% sé akkúrat rétta talan.