148. löggjafarþing — 7. fundur,  21. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[17:04]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég styð alveg málflutning hv. þm. Helga Hrafns Gunnarssonar í sambandi við þessi mál, sérstaklega í sambandi við frítekjumörk. Ég bendi á að í því samhengi er dr. Haukur Arnþórsson búinn að vinna rosalega góða greinargerð fyrir eldri borgara í Reykjavík. Sú greinargerð er til á heimasíðu eldri borgara og sýnir þar eiginlega svart á hvítu að þetta mun ekki kosta neitt. Í þjóðfélagi þar sem vantar vinnuafl hlýtur að vera mjög skrýtið að segja við ákveðinn hóp að hann megi eiginlega ekkert vinna. Það er stórfurðulegt og eiginlega óskiljanlegt.

Annað sem hann kom inn á snýst um enn ljótari hluti, frítekjumörk öryrkja. Þau eru kapítuli út af fyrir sig, kapítuli sem er gjörsamlega óskiljanlegur vegna þess að það hefur svo áhrif á margar aðrar tekjur, veldur þvílíkum keðjuverkandi skerðingum að það er með ólíkindum að svoleiðis kerfi hafi verið fundið upp. Það að refsa veiku fólki og slösuðu með svona undarlegu kerfi er stórfurðulegt. Þess vegna er mjög gott að einfalda kerfið. Það var einfaldað hjá eldri borgurum og það þarf auðvitað að gera líka hjá öryrkjum.

Ég styð að mörgu leyti borgaralaun. Ég er að skoða hugmyndina, er ekki alveg búinn að ná utan um hana. Það er verið að gera tilraunir með hana og ég er búinn að vera að reyna að fylgjast með þessu. Það er bara flott.

Síðan í sambandi við verðtryggingu eða skatta á vaxtatekjur finnst mér það allt í lagi en ég get aldrei skilið að ef maður er með lága vexti er maður kannski að tapa, eiginlega ekki að fá neina vexti. Af hverju eru ekki bara vextirnir fyrir utan verðbólguna?