148. löggjafarþing — 7. fundur,  21. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[18:14]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur reynst mér ágætlega að hlusta á hv. þingmann þegar hann er í stjórnarandstöðu. Ég hegg eftir því í nefndaráliti hv. þingmanns, 3. minnihlutaálitinu, með leyfi forseta, þar stendur:

„Þriðja minni hluta þykir sæta furðu að á tímum fordæmalausrar uppsveiflu í efnahagsmálum gangi ríkisstjórnin fram með eintómum skatta- og gjaldahækkunum og auknum álögum án þess að á móti komi nokkur einasta lækkun.“

Ég velti fyrir mér hvort ég sé að skilja þetta eitthvað vitlaust. Ég hef skilið hlutina þannig að þegar það er vöxtur — þetta er ákveðin kenning sem fólk aðhyllist mismikið — og hagsveiflan er upp á við, eigi maður ekki að lækka skatta. Þegar hagsveiflan fer niður eigi maður ekki að hækka skatta heldur þvert á móti lækka þá. Hækka þá þegar hún fer upp. Ég gagnrýndi nú á sínum tíma svolítið skattalækkanir þegar uppsveiflan var hvað mest, þegar ég var síðast á þingi, á kjörtímabilinu 2013–2016. En núna þykir ljóst, og ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður sé sammála því, að við séum á toppi hagsveiflunnar. Ég hugsa að hv. þingmaður sé sammála mér um að þá beri einmitt að lækka skatta eða í það minnsta að gera eitthvað til að örva hagkerfið, hvort sem er með auknum ríkisútgjöldum eða öðru. Svo myndum við auðvitað þræta um það hvernig skattalækkanir hann myndi vilja fara í. Ég myndi sjálfur vilja sjá hækkun á persónuafslætti. En mér finnst þetta skrýtin lína því mér finnst hún gefa í skyn að maður eigi ekki að hækka skatta þegar það er fordæmalaus uppsveifla í efnahagsmálum. Ég hefði haldið að það væri akkúrat öfugt. Það er einmitt þá sem maður á að hækka skatta. Við ættum kannski að vera að lækka skatta núna vegna þess að við erum ekki lengur í fordæmalausri uppsveiflu heldur komin á þennan topp.

Ég velti fyrir mér viðhorfum hv. þingmanns gagnvart þessu.