148. löggjafarþing — 7. fundur,  21. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[18:49]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta efh.- og viðskn. (Þorsteinn Víglundsson) (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það verður að segjast eins og er að á þeim hlaupum sem efnahags- og viðskiptanefnd hefur verið í að afgreiða þetta mál hefur ekki gefist mikill tími til að ræða mögulegar breytingartillögur minni hluta. Þessi sjónarmið hafa vissulega verið reifuð. Ég hygg að ég eigi nú stuðningsmenn við þessa hugsun í meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar, hvernig svo sem þeir myndu kasta atkvæði sínu þegar þar að kæmi. En auðvitað snýst þetta í einfaldleika um það að vera ekki að fikta í skattkerfinu í einhverju hálfkáki heldur ljúka endurskoðunarvinnunni áður en einhverjar breytingar eru lagðar fyrir þingið. Hér er einfaldlega verið að koma og segja: Það hljómar eins og niðurstaðan hafi verið að við verðum að hækka einhverja skatta á móti öllum þessum útgjöldum sem við erum að leggja hér til, við skulum skutla fjármagnstekjuskattinum upp um einhver 2%, svo tölum við bara fallega um það hvernig við ætlum að endurskoða þetta einhvern tímann. Þetta eru auðvitað engin vinnubrögð.

Það er langskynsamlegast að ljúka til enda endurskoðunarvinnu á fjármagnstekjuskattskerfinu hvernig gjaldstofninn eigi að vera og hver skattprósentan eigi þá að vera til að skila þeim tekjum sem meiri hlutinn er að sækjast eftir, ekki vera að hringla í kerfinu núna með einhverjum smáskammtalækningum. Við þekkjum það svo sem ágætlega frá tíð ríkisstjórnarinnar frá 2009–2013 þar sem skattbreytingar náðu nánast fjölda daga í ári, það var engin leið að hafa tölu á öllum þeim breytingum sem þar var verið í á hverju einasta ári. Ég held að miklu skynsamlegra sé að vanda til verka, ljúka endurskoðuninni og taka svo ákvörðun um það hver skattprósentan eigi að vera á þeim grunni.