148. löggjafarþing — 7. fundur,  21. des. 2017.

málefni fatlaðs fólks og aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum.

28. mál
[20:51]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Nú erum við enn og aftur að samþykkja bráðabirgðaákvæði um NPA-þjónustu. Því miður er ekki með þessu frumvarpi verið að festa NPA varanlega í lög, en með endurskoðun laga um málefni fatlaðs fólks og laga um félagsþjónustu sveitarfélaga verður það gert. Það er sameiginlegur skilningur allra flokka að sú vinna verði sett í forgang. Eins og kemur fram í áliti velferðarnefndar er fyrirhugað að þau lög taki gildi 1. júní 2018 og með þeim verði notendastýrð persónuleg aðstoð lögfest endanlega.

Eins og kemur fram í bráðabirgðaákvæðinu er gert ráð fyrir 286 millj. kr. fjárheimild til samninga um notendastýrða persónulega aðstoð í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2018. Fjárheimildin er aukin um 70 millj. kr. frá árinu 2017 í því skyni að unnt verði að fjölga samningum um 25, eða úr 55 samningum í 80 samninga. Eins og fram kemur í nefndaráliti var það niðurstaða nefndarinnar að þessi aukning væri ekki nægileg til að svara eftirspurn. Það hefur komið skýrt fram frá málsvörum fatlaðra sem og í þeirri greiningarvinnu sem hefur farið fram að þörf er á fleiri en 80 samningum.

Í umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um fjárlagafrumvarpið 2018 er fjallað um þessa aukningu samninga úr 55 í 80 og kemur fram, með leyfi forseta:

„Notendastýrð persónuleg aðstoð er þjónustuform sem mætir mjög vel þeim skuldbindingum sem ríki hafa samkvæmt samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks til að laga þjónustuna að þörfum þeirra sem í hlut eiga og að tryggja fötluðu fólki tækifæri til sjálfstæðs og eðlilegs lífs og virkrar þátttöku í samfélaginu. Þessi ráðagerð um litla fjölgun samninga lýsir litlum metnaði á þessu sviði almennt og sérstaklega í ljósi þess að ætla má að stór sveitarfélög séu tilbúin til samstarfs um mun meiri fjölgun NPA-samninga.“

Samkvæmt þeim samtölum sem ég hef átt er það rétt að stór sveitarfélög eru tilbúin til samstarfs um mun meiri fjölgun NPA-samninga. Sé ég þess vegna ekki ástæðu til að bíða með þetta. Ég hef sagt það áður og mun segja það aftur að fjárhagsáætlanir eiga ekki að vera notaðar til þess að takmarka réttindi fólks. Þetta kemur fram í almennum ábendingum nefndar Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og ætti að vera öllum augljóst. Það að einhver einstaklingur hafi ekki aðgang að þeirri nauðsynlegu þjónustu sem tryggir honum sjálfstætt líf vegna þess að ekki er svigrúm innan fjárlaga er ólíðandi.

Nú hefur borist breytingartillaga til fjárlaganefndar þess efnis að fjárheimild til samninga um notendastýrða persónulega aðstoð verði aukin um 70 milljónir til viðbótar. Það er því komið í hendur þingsins að samþykkja aukna fjárheimild til þessa málaflokks. Þetta er ekki stór upphæð sem þarf og vona ég svo innilega að þingmenn sjái sóma sinn í því að samþykkja þessa aukningu.