148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[14:04]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir viðbrögðin. Ég spurði hv. þingmann um markmiðið í greiðsluþátttöku sjúklinga. Ég veit að hv. þingmaður hefur kynnt sér OECD-skýrslur og fylgist með þeim talnagrunni sem þar er unnið með. Þar er byggt á því að greina prósentutölu, þ.e. hlutfall þess sem sjúklingar greiða sjálfir. Ég spyr þingmanninn hvað hann telji farsælt markmið. Núna erum við í kringum 17% og höfum verið um nokkurt árabil. Er það góður staður fyrir okkur? Ekki að mínu mati. Ég tel að við eigum að setja markið töluvert lægra. En mig langar að heyra hvort hv. þingmaður og Samfylkingin hafi einhver markmið í þeim efnum.

Hækkunin milli ára, sem er kannski mikilvægast að horfa til þegar allt kemur til alls, er 8,6% á heilbrigðisstofnanirnar á landinu. 8,2% fyrir Landspítalann. Það eru tölurnar. Verg landsframleiðsla, hrein ríkisframlög inn í heilbrigðiskerfið eru 7% á árinu 2016, 7,7 á yfirstandandi ári og um 8,5% á næsta ári af vergri landsframleiðslu. Það eru umtalsverð skref í áttina að því að styrkja hið opinbera heilbrigðiskerfi, sem er að mínu mati það mikilvægasta sem við getum gert núna í ljósi þess að það hefur gengið verulega sundur með þeim kerfum sem annast hér heilbrigðisþjónustu.