148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[14:50]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Ólafur Ísleifsson) (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Það hefur ekki komið nógsamlega fram og verið undirstrikað nógsamlega, þó svo að það hafi verið sagt margsinnis, m.a. af hálfu þess sem hér talar, að skuldbindingin hjá þeim sem tekur að sér og/eða undirritar verðtryggt lán er svo víðtæk. Það eru milljón atriði sem geta hækkað þennan höfuðstól og þyngt greiðslubyrðina. Varnarleysi þess sem á þar hlut að máli gagnvart miklu sterkari aðila í langflestum tilfellum er algert. Allt afl réttarkerfisins er að baki hinum aðilanum.

Varðandi kaflann um framkvæmd fjárlaga lít ég á hann sem afar mikilvægan í þessu nefndaráliti og þykir (Forseti hringir.) afar miður að hafa ekki getað farið nánar yfir hann í framsögu minni. En að sjálfsögðu (Forseti hringir.) varð ég að láta málefni þeirra sem höllustum fæti standa í samfélagi okkar hafa algeran forgang þegar ég úthlutaði (Forseti hringir.) ræðutíma mínum í þessu efni. (Forseti hringir.) En ég þakka athugasemdir þingmannsins.

(Forseti (JÞÓ): Forseti vill árétta við hv. þingmenn og hæstv. ráðherra að virða ræðutíma.)