148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[14:57]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Ólafur Ísleifsson) (Flf) (andsvar):

(Forseti (JÞÓ): Forseti áréttar við ræðumenn að bíða eftir að þeir séu kynntir til ræðunnar áður en þeir fara í púltið. Það er gott að læra af mistökunum, gera það þannig og gera það bara strax.)

Herra forseti. Ég þakka forseta mikilvægar leiðbeiningar og þann góða og kærleiksríka anda sem einkenndi alla framgöngu hans þegar hann hafði uppi þetta litla námskeið hér.

Ég vil nota þennan litla tíma til að vekja athygli á því varðandi 166 milljónirnar að hafa verður í huga að þær hafa að markmiði að brúa mismun gagnvart eldri borgurum. Það er rétt að árétta að nauðsyn er að löggilda framfærsluviðmið ráðuneytisins. Ég get fullvissað hæstv. ráðherra og aðra um að það mun ekki standa á Flokki fólksins að taka þátt í því nauðsynlega og mikla starfi sem liggur fyrir, að (Forseti hringir.) bæta kjör öryrkja og alla umgjörð sem þeim er búin.