148. löggjafarþing — 9. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[22:24]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þetta fyrsta fjárlagafrumvarp ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur er ekkert annað en svik við kjósendur sem var lofað einhverju allt öðru. Þeirri viðbót sem lögð er til og stjórnarliðar eru svo ánægðir með mætti líkja við reikniskekkju upp á 2,2%. Meira að segja fjáraukalögin sem við ræddum á dögunum skiluðu hærri upphæð.

Meðan ójöfnuður fer vaxandi beitir ríkisstjórnin og hv. stjórnarmeirihluti ekki þeim stýritækjum sem þau búa yfir til að vinna gegn ójöfnuði. Þetta er algjörlega óásættanlegt og ekki svar við ákalli almennings um sterkara velferðarkerfi og bætt kjör þeirra sem verst hafa það í landinu.