148. löggjafarþing — 9. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[23:15]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Enn og aftur kem ég hérna upp og gef stjórnarflokkunum tækifæri til að standa við orð sín. Að þessu sinni leggjum við fram tillögu um 400 milljónir til viðbótar í heilsugæsluna. Ég held að hver einasti þingmaður hér hafi talað fyrir gildi og mikilvægi heilsugæslunnar sem fyrsta viðkomustaðar sjúklings í heilbrigðiskerfinu. Heilsugæslustöðvar hafa lengi kvartað yfir að þær vanti fjármuni til að sinna þeirri þjónustu sem við ákveðum að þær þurfi að sinna. Þess vegna viljum við í Samfylkingunni mæta þessum hófsömu óskum um einungis 400 milljónir til að setja í þá lykilinnviði sem heilsugæslan er.

Heilsugæslan fær einungis 3% aukningu eftir innkomu Vinstri grænna í ríkisstjórn þannig að enn og aftur eru þetta vonbrigði og það ber að harma.