148. löggjafarþing — 9. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[23:27]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég styð þessa tillögu eindregið, ekki hvað síst vegna þess að hún er bæði réttlætistillaga og líka hagkvæmnistillaga. Hún er hagkvæm fyrir samfélagið. Ég hef orðið var við það að meira að segja hæstv. fjármálaráðherra virðist algjörlega misskilja eða ekki átta sig á afleiðingunum ef þessi tillaga verður samþykkt. Hæstv. ráðherra virðist ekki gera sér grein fyrir því að langflestir, nánast allir, kannski allir, sem eru með háar tekjur og eru komnir á aldur, eins og sagt er, verða fyrir skerðingum vegna lífeyris, vegna þess að þeir eru í nánast öllum tilvikum búnir að safna sér það miklum lífeyri að hann einn og sér sér um skerðinguna. (Gripið fram í.)

Launin hjá þessu fólki breytast ekki við þetta. Þetta er fyrst og fremst til að koma til móts við það fólk sem getur nýtt sér starfshæfni sína áfram, þarf kannski á því að halda vegna þess að það er ekki búið að safna eins miklum lífeyrissparnaði og hálaunafólkið. Þetta er á allan hátt sanngirnistillaga og hagkvæm tillaga.