148. löggjafarþing — 10. fundur,  28. des. 2017.

fátækt á Íslandi.

[14:28]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég ætla að ítreka í þessum ræðustól að það hafa orðið stór mistök við gerð fjárlaga. Mistökin liggja í því að komma fór á rangan stað. Hækkun til eldri borgara og öryrkja átti að vera 47% og ár aftur í tímann, að lágmarki.

Og hvað þýðir það ef þetta hefði verið raunin? Jú, það myndi þýða það að flest þetta fólk, 70% af því, væri með um 260 þús. kr. útborgað ef það fengi 47% hækkun. Í staðinn fær fólk rétt um 200 þús. kr. útborgað. Ef við setjum þetta í samhengi við það sem flestir fá um þessi áramót eru þetta 6.700 kr. Það eru öll ósköpin. Á sama tíma erum við alltaf að mismuna, við búum til mismununarkerfi, kerfi sem mismunar fólki. Af hverju getum við t.d. ekki borgað öllum sama jólabónusinn? Hvernig í ósköpunum stendur á því að það þarf að mismuna þar líka? Þingmenn fá 180 þús. kr. Sumir fá ekki neitt. Hvað er síðan notað til að refsa fólki með jólabónus? Lífeyrissjóðirnir, þeir nota hann til að skerða fólk niður í 0. Þetta er líka gert með orlofið. Við erum að búa til refsikerfi. Ég skil ekki hvernig fjármálaráðherra getur komið hér upp, sem hefur sjálfur fengið 44% kauphækkun frá kjararáði, og sagt við það fólk sem er verst statt í þessu þjóðfélagi: Við erum að gera rosalega mikið fyrir ykkur, þið fáið 4,7%.

Þetta getur ekki staðist, þetta hlýtur að hafa átt að vera 47% og afturvirkt.

Síðan er annað og það er þetta ljóta orð sem hefur verið notað í þingsal einu sinni síðan ég kom hingað inn: Örorkubyrði. Samtök atvinnulífsins, lífeyrissjóðir og aðrir nota þetta orð, en þetta er réttur fólks, lögvarinn réttur fólks sem á að fá frá lífeyrissjóðum og þar af leiðandi er það aldrei byrði. Þetta er réttur.