148. löggjafarþing — 10. fundur,  28. des. 2017.

fátækt á Íslandi.

[14:38]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Ingu Sæland fyrir að setja þetta mál á dagskrá. Fátækt barna er algjörlega ólíðandi. Við höfum sem samfélag fjárfest umtalsvert í velferðarsamfélaginu þannig að fátækt barna sé með minnsta móti. Hins vegar er það svo að eitt barn sem líður skort er einu barni of mikið.

Menntakerfið er eitt mikilvægasta jöfnunartækið sem við höfum og höfum fjárfest í því. Skólar landsins hafa staðið sig sérstaklega vel að vakta stöðu fátækra barna og eiga þeir mikið lof skilið fyrir að taka þetta að sér eins og þeir hafa verið að gera. Ríkisstjórnin hefur verið að auka framlög verulega til menntamála. Aukningin á ársgrundvelli nemur um 6%. Af hverju er ríkisstjórnin að leggja þessa auknu áherslu á menntamál? Jú, vegna þess að í menntun felast tækifæri.

Annað sem ég vil nefna og skiptir verulegu máli er aðgengi að tómstundum, íþróttum, tónlist og öðru æskulýðsstarfi. Frístundakortið er jöfnunartæki sem beitt er til þess að jafna aðgengi barna að tómstundum. Sveitarstjórnarstigið á lof skilið fyrir að innleiða frístundakortið. Það er mikilvægt vegna þess forvarnagildis sem þátttaka barna í íþróttum og tómstundum hefur leitt af sér. Að auki sýna rannsóknir að sterkt samband sé á milli hreyfingar og frammistöðu í námi. Því er afskaplega mikilvægt að við styrkjum alla umgjörð og aðgengi að tómstundastarfi er varðar börn.

Ríkisstjórnin er mjög áfram um að efla menntakerfið, sérstaklega fyrir börnin í landinu.