148. löggjafarþing — 10. fundur,  28. des. 2017.

fátækt á Íslandi.

[14:40]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mér finnst vera grundvallarspurning hérna sem mér sýnist ekki alveg allir koma auga á, þ.e. hvort fátækt eigi að líðast eða ekki. Það er oft vísað til jafnra tækifæra, að fólk eigi að hafa jöfn tækifæri. En þegar við spyrjum þeirrar spurningar erum við að spyrja hvort fátækt eigi að líðast yfir höfuð, óháð tækifærum, vegna þess að það verður alltaf fólk sem nýtir ekki tækifærin, sem þó eru til staðar, af einhverjum ástæðum, aðstæður sem yfirvöld geta ekki gert ráð fyrir og hafa ekki, sem betur fer, nógu mikil inngrip í líf fólks til að gera ráð fyrir öllu sem getur hugsanlega átt sér stað í lífi hverrar manneskju, eða þá að fólk hreinlega þekkir ekki tækifærin sem standa til boða. Það er líka til, en það er óháð því.

Ef við segjum að fátækt eigi ekki að líðast dugir ekki að segja að allir hafi jöfn tækifæri. Fólk sem ekki nýtir tækifærin sem eru til staðar af einhverjum ástæðum — fátæktin bitnar á börnum þess. Og ég held að það sé auðveldara fyrir okkur að segja að börn eigi aldrei nokkurn tímann að vera í fátækt. Við hljótum að geta verið sammála um það. En það þýðir að við þurfum að einbeita okkur að hópnum sem sér um börnin, nefnilega foreldrum og forráðamönnum. Það er því alveg hárrétt sem hefur verið sagt hér nokkrum sinnum, að þetta sé pólitísk ákvörðun. Það er ekki hægt að láta náttúrulögmálin einhvern veginn laga þetta. Það er ekki þannig, við búum ekki í þannig heimi. Sum hagkerfi, og ég vil meina öll hagkerfi, gera ráð fyrir fátækt á einhvern hátt og eina leiðin til að útrýma fátækt er að skattleggja eign og veita því annað. Það er eina leiðin sem ég veit um, er alveg opinn fyrir hugmyndum, en það er þannig. Þá liggur beinast við að mínu mati og það sem við ættum að gera, með fyrirvara um þær tillögur sem væntanlega koma fram samkvæmt því sem hæstv. ráðherra sagði, er að laga almannatryggingakerfið, einfalda það og laga það. Það er fullt af vandamálum í því, sum mjög augljós vandamál, sem við ættum öll að geta sameinast um að laga. Við ættum að heimila öryrkjum að vinna, þeim sem það geta, án þess að hegna þeim. Við eigum að hætta að refsa fólki fyrir ráðdeild eins og að búa með öðrum eða dirfast að leyfa barninu sínu að ná 18 ára aldri án þess að kasta því að heiman samstundis. Það eru tvímælalaust leiðir til að auka (Forseti hringir.) tækifæri fátæks fólks, það er eflaust alveg satt, en lamandi aflið er fátæktin sjálf. Við eigum að laga hana fyrst til að fólk geti þá nýtt þau tækifæri sem annars eru í boði.