148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

barnabætur.

[10:44]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Hæstv. forsætisráðherra velur að drepa málum á dreif enda er málefnið viðkvæmt, hlýtur að vera, fyrir hæstv. forsætisráðherra sem hafði tíma til þess að gera alls konar breytingar eins og við höfum séð hér á dögunum fyrir jól, bæði stórar og smáar, en það er ekki tími til að gera breytingar sem gagnast fátækasta barnafjölskyldufólkinu í landinu. Það er ekki tími til þess.

Getum við ekki öll verið sammála því að það að byrja að skerða barnabætur fyrir neðan lágmarkslaun sé óréttlátt kerfi og fyrsta skrefið í endurskoðun ætti að vera að breyta því viðmiði?

Ríkisstjórnin myndi sýna og senda skýr skilaboð um að það ætti í raun og veru að bæta hag barna á Íslandi ef hún myndi taka þetta skref og sýna líka skýr skilaboð um að hér ætti að breyta vinnubrögðum.

Hæstv. félags- og jafnréttismálaráðherra talaði um að ræða ætti um barnabætur við kjarasamningaborðið. Er það virkilega svo (Forseti hringir.) að hæstv. forsætisráðherra mæli með því að fólk á lægstu laununum semji (Forseti hringir.) ekki um óskertar barnabætur? Ætlar ríkisstjórnin þannig (Forseti hringir.) að standa sömu megin samningaborðsins (Forseti hringir.) við hlið (Forseti hringir.) atvinnurekenda?