148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

um fundarstjórn.

[11:09]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Mér finnst fólk orðið ansi þungort hér, alla vega sumir hv. þingmenn, ekki allir. Ég vil alls ekki gera hv. þingmönnum upp skoðanir. Ég benti aðeins á varðandi tekjuöflunartillögur sem hafa komið hafa fram, og þá er ég ekki bara að tala um hugmyndir sem reifaðar eru í ræðu eða nefndarálitum heldur tillögur sem komu fram, eins og réttilega var bent á af hv. þm. Þorsteini Víglundssyni, um aukna hækkun kolefnisgjalds, að aðrar tekjuöflunartillögur hafa ekki komið fram. Ég læt ekki segja það hér að ég fari með rangt mál.

Ég vil svo vitna í nefndarálit hv. þm. Oddnýjar G. Harðardóttur þar sem 2. minni hluti varar við þeim áformum ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur sem felast í því að lækka skatt og auka útgjöld í senn á toppi hagsveiflunnar undir yfirskriftinni óábyrg hagstjórn. Ég held að það sé hluti af þeim vinnubrögðum sem við gætum tamið okkur hér að vanda okkur aðeins meira í því sem við segjum.

Ég vil segja um hv. þingmenn Pírata að ég ætla ekki að gera þeim upp neinar skoðanir um það hvort þeir vilji ganga á afganginn. Ég velti því (Forseti hringir.) hins vegar upp hvort það væri hugsanlega leiðin.