148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

veiting ríkisborgararéttar.

75. mál
[12:58]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Mig langar að koma hér upp í atkvæðaskýringu í tengslum við veitingu ríkisborgararéttar sem hér fer fram. Það er auðvitað þannig að þetta hefur ekkert með þá einstaklinga sem um ræðir í þessu máli að gera, en mér þykir verklagið allt heldur ómögulegt.

Tillagan er unnin í allsherjar- og menntamálanefnd, í einhverri undirnefnd þar og við sem hér sitjum og eigum að taka ákvörðun um þessi mál fáum samanlagt engar upplýsingar aðrar en nöfn, frá hvaða landi viðkomandi komi upphaflega og hvenær hann sé fæddur. Þegar maður óskaði eftir upplýsingum varð heldur fátt um svör. Mér þykir þetta verklag ekki í lagi og þess vegna ætla ég að sitja hjá við þessa afgreiðslu og vona að þetta verði fært til gegnsærri og betri vegar næst. Og fyrst ég sé að Helgi Hrafn Gunnarsson er næstur á eftir mér er rétt að nefna að þetta verklag er í miklu ósamræmi til að mynda við þær ríku kröfur sem Píratar gera um gegnsæi og verklag í öðrum málum og vekur því sérstaka athygli að þeir skrifi upp á það eins og það hefur verið undanfarin ár og áratugi hugsanlega, nú þekki ég það ekki. En í þetta skipti ætla ég að sitja hjá.