148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjáraukalög 2017.

66. mál
[15:32]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér fjáraukalög núverandi árs. Við höfum tekið þau svolítið hratt í gegnum þingið og fjárlaganefnd, eins og önnur mál. En mig langar aðeins að koma inn í þá umræðu.

Framsögumaður nefndarinnar gerði ágætlega grein fyrir nefndarálitinu. Í andsvörum komu fram ýmsar ábendingar sem ég held að við getum að mörgu leyti verið sammála um. Ég hef litið svo á að það frumvarp sem við erum að bæta við núna sé einmitt vegna þess stjórnmálaástands sem uppi hefur verið. Það breytir því þó ekki endilega að öðruvísi hefði verið hægt að fara að en gert var. Við ræðum það sérstaklega í nefndarálitinu og segjum beinlínis að við hyggjumst ekki taka á móti svona fjáraukalagafrumvarpi aftur frá ríkisstjórninni heldur viljum við sjá breytingu þar á eins og lög um opinber fjármál kveða á um. Það er lærdómsferli í gangi varðandi lögin um opinber fjármál. Þau verða tveggja ára núna um næstu áramót. Ég man þegar við vorum að vinna að gerð þeirra, við í fjárlaganefnd fórum til Svíþjóðar og heimsóttum kollega okkar þar og reyndum að fá upplýsingar og annað slíkt frá þeim hvað varðaði það ferli sem okkar ferli byggir að mörgu leyti á, að þar var einmitt talað um að þetta tæki töluverðan tíma. Þar er auðvitað annar háttur hafður á en hjá okkur því að þar er jú alltaf byggt á því frumvarpi eða þeirri ríkisfjármálaáætlun sem fyrir liggur. Það er auðvitað svolítið öðruvísi tilhögun í pólitíkinni. Það er ekki einu sinni alls staðar kosið nema á fjögurra ára fresti. Það er auðvitað ekki hægt að líkja öllu saman þar.

Töluvert var talað um að þetta væri langt ferli og tæki töluverðan tíma í innleiðingu. Við reyndum að styrkja ráðuneytin með því að setja inn auka fjármuni til þess að bæta fjárhagssýsluna í ráðuneytunum. En þetta er líka töluverð breyting á ýmsu og framsetningu og öðru slíku fyrir allar stofnanir. Það er ekkert óeðlilegt við að margt þurfi að endurskoða og fara yfir. Við höfum meira að segja talað um það líka að við gætum þurft að endurskoða lögin sjálf með tilliti til ýmissa hluta sem hafa komið upp á. Ég held að það sé eitt af því sem við þurfum að gera.

Við í meiri hlutanum minnumst á varasjóðina sem var töluvert mikið rætt um í nefndinni og teljum að það þurfi að skerpa svolítið á regluverkinu um varasjóðina. Við segjum beinlínis við ráðherrana okkar að þeir þurfi að nýta sér þá betur en gert hefur verið fram til þessa áður en þeir leggja til beiðni í fjáraukalög.

Fram kom hjá nefndinni að það hafa ekki verið nýttar nema 26 milljónir af varasjóðum málaflokka þó að sjóðirnir nemi 891 millj. kr. Þetta eru 37 málaflokkar og hefur líka komið upp umræða um hvort allir málaflokkar þurfi að hafa varasjóð og þá hversu mikinn. Þarf hann að vera mismikill, eða hvað? Það er eitt af því sem nefndin þarf að taka fyrir sem hluta af verklagi um opinber fjármál, að fara yfir hvað betur má fara og hvort við þurfum að breyta einhverju í lögunum.

Nefndin í heild, og það kemur fram í áliti minni hlutans, er sammála um að vanda hefði mátt betur til verka hvað það varðar, þ.e. samspil varasjóða og fjáraukalagafrumvarpsins, og hefðum við eflaust ef tíminn hefði verið rýmri krafist nánari skýringa, það hefði kannski að einhverju leyti haft áhrif á niðurstöðuna. En það þýðir ekki að við teljum ekki að þetta sé fram sett með viðeigandi hætti að öðru leyti, þ.e. að þetta standist þau lög sem hér er um að ræða.

Gráu svæðin eru alltaf umdeilanleg og við þekkjum það í gegnum umræðuna. Hér eins og víða greinir okkur á um þau.

Í þessu fjáraukalagafrumvarpi eru nokkrir stórir póstar. Búið er að endurmeta tekjur eins og vera ber. Þær hafa aukist um 39 milljarða og er afgangurinn þá áætlaður um 1,7% af vergri landsframleiðslu.

Hér eru líka póstar sem hafa síendurtekið komið fram á fjáraukalögum í gegnum tíðina, leyfi ég mér að segja. T.d. hefur komið fram vanmat á Sjúkratryggingum Íslands eiginlega alveg frá stofnun þeirra.

Í fjárlögunum, sem við munum ljúka við að ræða hér á eftir, verður hins vegar tekið á því þannig að við eigum ekki að þurfa að búast við þeirri vanáætlun eins og verið hefur fram til þessa, að minnsta kosti ekki af þeim þunga sem verið hefur hér ár eftir ár. Þar eru meðal annars aukin framlög vegna almannatrygginga, sem er þá fyrst og fremst vegna öryrkja, en svo eru það auðvitað lyfin sem hafa gjarnan farið töluvert fram úr og jafnframt sérfræðiþjónusta.

Síðan eru það málefni innflytjenda og flóttamanna sem hefði að mínu mati átt að vera hægt að taka betur á en gert var. Við sem sátum í fjárlaganefnd fengum ábendingar og upplýsingar um að samkvæmt Útlendingastofnun teldi hún raunþörfina meiri. En það var ekki niðurstaðan og var ekki lagt til nema að litlu leyti. Dómsmálaráðherra brást við á miðju ári með því að setja aukna fjármuni, en svo er heldur ekki hægt að taka það frá þeim sem að málefnunum vinna að það voru viðbrögð sem vörðuðu endurskoðun á verklagi og öðru slíku sem hjálpuðu til við að draga úr kostnaði þannig að hann varð ekki alveg eins mikill og gert hafði verið ráð fyrir.

Ég ætla aðeins að nefna samkomulagið við þjóðkirkjuna, sem er mjög bagalegt að ekki skuli vera búið að ganga frá. Það ætti að vera fyrir löngu búið að ganga frá því. Það var líka umræða sem fór fram í nefndinni. Við hvetjum ráðherra okkar til að ganga frá því máli þannig að við tökumst ekki á um það enn og aftur. Það er að mörgu leyti skiljanlegt hvers vegna þetta er ekki sett inn í fjárlög. Það er samkomulagsmál og þarf gjarnan að semja um áður en eitthvað er lagt í það.

Síðan er það vandi sauðfjárbænda sem var nú beinlínis settur í ríkisstjórnarsáttmálann og hefur verið tíundaður töluvert í fjölmiðlum. Við ræddum hann í nefndinni og fengum til okkar bændaforystuna og ráðuneyti til að fara aðeins yfir tillögu frá ráðherra. Eins og flestir þekkja varð verðfall í kjölfarið á viðskiptasambandi, eða hvað það nú er, varðandi Evrópusambandið og líka við Rússland, það hefur valdið verulegum tekjusamdrætti og skapað mikinn forsendubrest. Gengið var út frá ákveðnum forsendum í uppleggi ráðherra sem hefur svo verið breytt aðeins því að þrátt fyrir að það sé vissulega þannig í dreifðum byggðum að sauðfjárræktin er mjög mikilvæg stoð við önnur störf í sveitarfélögum og litlum byggðum og svo ótrúlega margt byggir á því að sauðfjárbændur séu til staðar. Þeir sinna ýmsum störfum sem annars væri ekki sinnt, t.d. í björgunarsveitum og slökkviliði og ýmsum öðrum samfélagslegum störfum sem yrði mjög erfitt að manna ef sauðfjárbúskapur legðist af á þessum svæðum.

Það eru köld svæði víða, hvort sem það er í sauðfjárræktinni eða annars staðar. Lagt er til ákveðið fjármagn til þess að styðja við það. Eins er verið að bregðast við hinum fjárhagslega afkomubresti. Við skulum ekki gleyma því að sauðfjárbændur eru með einna lægst launuðu stéttum landsins.

Við vonum að þessi aðgerð geti spornað við því að það verði mjög mörg gjaldþrot eða mikil röskun í þessum byggðum. Þess vegna er gert ráð fyrir að almenni stuðningurinn verði 400 milljónir og svæðisbundinn stuðningur 50 milljónir. Svo er það að aðgerðir á sviði kolefnisjöfnunar og nýsköpunar lækki um 50 milljónir.

Þetta er í takti við það sem bændaforystan lagði upp með og okkur fannst eðlilegt að bregðast við. Ég vona svo sannarlega að þetta verði til þess að sporna við verulegri byggðaröskun.

Í lokin er gert ráð fyrir framlagi til Íslensku kosningarannsóknarinnar. Gerð hefur verið viðhorfskönnun meðal kjósenda eftir hverjar einustu kosningar frá 1983 þar til á síðasta ári. Okkur finnst ástæða til að slíkt haldi áfram. Það er upplýsandi og skiptir máli að kanna kosningahegðun.

Ég ætla svo sem ekki að hafa þetta lengra. Ég get alveg tekið undir að við þurfum að ræða þetta í okkar flokkum, meiri hlutinn, við ráðherra okkar, og leggja brýna áherslu á að bólgin fjáraukalög munum við ekki sætta okkur við. Ég held að við séum öll sammála um það, bæði í minni og meiri hluta, að þetta eigi að framkvæma með öðrum hætti. Það er verkefnið. Að fara yfir og finna út úr þessu með varasjóðina, skoða regluverkið um opinberu fjármálin. Það eru fleiri þættir þarna undir sem komið hafa fram í þau tvö ár eftir að þau urðu að lögum og ég hef setið í nefndinni. Þannig að ég held að það sé eitthvað sem við eigum að sameinast um eftir áramótin og sjá hvað okkur vinnst áfram í því. Það verða reyndar mörg verkefni sem við þurfum að vanda okkur við í fjárlaganefnd.