148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[18:53]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það sem skiptir velferð íbúa landsins mestu máli er að hér sé alvörurekstur á ríkissjóði. Það þýðir ekkert að hækka bara í alla málaflokka, fyrir utan það að gert er mikið af því í þá málaflokka sem hv. þingmaður talar um, barnabætur, lífeyrisgreiðslur o.s.frv. Mesta hagsmunamál almennings er að hér sé ábyrg fjármálastjórn, góður rekstur á ríkissjóði, því að auðvitað geta allar stofnanir ríkisins notað meiri pening og gert betur o.s.frv.

En þegar maður hefur hlustað á ræðu hv. þingmanns þrisvar sinnum og talað er um milljarðana hér og þar, og ég held ég geti fullyrt það, að hagsmunum almennings yrði ekki best borgið undir stjórn þess ágæta flokks.

Varðandi auðlegðarskattinn, jú, hann var nefnilega dæmdur löglegur, en það var vegna þess að það voru algjörlega sérstakar aðstæður. Ef hv. þingmaður skoðar forsendur dómsins betur þá er alveg augljóst að við núverandi aðstæður yrði ekki sami auðlegðarskattur lagður á, hann þyrfti að vera allt, allt öðruvísi.