148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[18:54]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er sérkennileg lögfræði sem hv. þingmaður ber hér á borð. Eignarskattar þekkjast víða. Auðlegðarskattur er ekkert annað en eignarskattur. Það eru takmörk fyrir því hversu hár eignarskattur getur orðið. Hv. þingmann rámar kannski í dómana í gamla daga um stóreignarskatt. Þá reyndi nú á það hversu háir skattarnir mega vera. En hófsamir eignarskattar hvort sem þeir heita auðlegðarskattur eða eignarskattur eru að sjálfsögðu löglegir og þekkjast víða í kringum okkur.

Hv. þingmaður talar sömuleiðis um rekstur. Að sjálfsögðu þarf rekstur ríkisins að vera ábyrgur. Við þurfum bæði efnahagslegan stöðugleika en líka félagslegan stöðugleika. Á það vantar. Við þurfum efnahagslegan stöðugleika og félagslegan stöðugleika. Það er góð hagfræði. Það er góð hagfræði að hafa ekki fólk í fátæktargildru. Það er góð hagfræði að fólk hafi tækifæri til að vinna sig upp tekjuskalann og verða tekjuhátt og vera á eigin forsendum á vinnumarkaði og leggja sitt af mörkum gegnum skattkerfið. En eins og staðan er í dag þá er það ekki nægjanlegt eins og við erum búin að hanna okkar kerfi. Við í stjórnarandstöðunni höfum bent á svo einfaldar leiðir. Við erum með barnabótakerfið og vaxtabótakerfið sem við getum bara með einum takka hér í dag bætt að örlitlu leyti. Auðvitað veit hv. þingmaður að það að setja 1,8 milljarða í barnabætur mun ekki setja neitt á hliðina.

Mér finnst svolítið kómískt að það komi frá þingmanni Sjálfstæðisflokksins að tala um ábyrgð í ríkisrekstri. Það er einmitt sá flokkur sem hér er að bera á borð 25 milljarða kr. fjáraukalög og biðja um að við samþykkjum það vegna algjörs klúðurs í áætlunargerð frá A til Ö. Hvar er ábyrgð þess flokks hvað það varðar, að bera hér á borð 25 milljarða í fjáraukalögum á sama tíma og við eigum ekki einu sinni að sjá fyrirbæri eins og fjáraukalög í þessum sal nema í algjörum undantekningartilvikum?