148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[19:03]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er nú út af fyrir sig ágætt að hv. þingmaður er glöð og ánægð með frumvarpið þó að ég geti ekki glaðst með henni. Hér fyrr í dag þegar var verið að afgreiða bandorminn svokallaða. Þá féll stjórnarmeirihlutinn frá því að rukka nemendur í iðn- og verknámi um sérstakt skólagjald eða efnisgjöld. Það þýðir að það vantar 300 millj. kr. inn í rekstur framhaldsskólans.

Ég var að blaða í skjölum hér frammi. Ég sé ekki breytingartillögu á móti sem færir framhaldsskólunum 300 milljónir í rekstrarfé. Er það svo að framhaldsskólunum sé ætlað að skera niður 300 milljónir vegna þess að stjórnarmeirihlutinn féll frá því í stórsókninni í menntamálum að rukka verknámsnemendur um efnisgjald?