148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[19:15]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Við erum í 3. umr. um fjárlög. Ég ætla svo sem ekki að fara að endurtaka mig um of úr fyrri ræðum en langar þó að fara yfir helstu aðfinnslur og þann varhuga sem ég geld við þau fjárlög sem hér er væntanlega verið að fara að samþykkja.

Fyrir það fyrsta er ágætt að rifja það upp enn einu sinni að við erum að fara að samþykkja eða afgreiða fjárlög sem ganga gegn gildandi fjármálastefnu og ganga gegn gildandi fjármálaáætlun. Því hefur verið lýst sem pólitískum óhentugleika en lögin eru skýr og frumvarpið sem er til umræðu brýtur einfaldlega gegn þeirri stefnu sem í gildi er og brýtur gegn þeirri fjármálaáætlun sem í gildi er. Það ber ekki merki um mikinn vilja til þess að breyta vinnubrögðum hvað þetta varðar.

Mér finnst þetta sérstaklega ámælisvert þegar við horfum til þess að sú ríkisstjórn sem er að hefja vegferð sína er að mörgu leyti ríkisstjórn sem sameinast um hinn smæsta eða lægsta samnefnara. Það fer ekki mikið fyrir áherslum á kerfisbreytingar eða lagfæringar hjá ríkisstjórninni, enda eru þessir flokkar ekki sammála um margt þegar kemur að slíku. En þar eru einmitt hvað mikilvægust atriði er snúa að vaxtakostnaði heimilanna í landinu, sem er gríðarlega hár og er ítrekað talað um. Stjórnmálamenn hafa mjög gjarnan talað fjálglega um háan vaxtakostnað en gera afskaplega lítið eða leggja lítið af mörkum til þess að gera það sem þeir geta gert til að lækka hann. Það er einmitt þegar kemur að efnahagshlutverki ríkisfjármálanna, aðhaldsstigi ríkisfjármálanna, sem svo margoft og ítrekað hefur verið varað við að á þessum punkti hagsveiflunnar, þegar við stöndum í hápunkti hennar, verði að gæta sérstakrar varúðar.

Hér er allnokkuð spýtt í með mjög lítilli fyrirhyggju og án þess að neinar fjármögnunartillögur liggi fyrir á móti, heldur er dregið úr afgangi ríkisfjármálanna, dregið úr aðhaldinu. Seðlabankinn hefur varað ítrekað við því að það muni að öðru óbreyttu valda hærri vöxtum en ella, sterkara gengi en ella og grafa undan samkeppnisstöðu útflutningsgreina, sem ýmsum talsmönnum þessarar ríkisstjórnar er mjög kært að tala um. En það er hér sem reynir á. Hér er tækifærið til að stuðla að bættri samkeppnisstöðu, stuðla að lægra vaxtastigi. En við erum að taka skrefið í hina áttina með þessu og það er auðvitað með gríðarlegum tilheyrandi kostnaði fyrir bæði fyrirtæki og heimili.

Þetta er varhugavert. Það er ámælisvert þegar við endurtökum mistök fortíðar aftur og aftur og aftur, þrátt fyrir allar þær aðvaranir sem við höfum fengið og hafa verið endurteknar fyrir okkur í umfjöllun fyrir fjárlaganefnd í aðsendum umsögnum um fjárlagafrumvarpið frá aðilum eins og Seðlabanka, Samtökum atvinnulífsins og fleirum, svona rétt til þess að halda því til haga. Það er nefnilega ítrekað sagt: Ja, það er hægt að gera svo miklu betur með íslensku krónunni við að ná vöxtunum niður. En þegar á reynir halda stjórnmálin gjarnan í hina áttina, stuðla að áframhaldandi óstöðugleika, stuðla að áframhaldandi háu vaxtastigi.

Það eru önnur aðfinnsluatriði í þessu sem ég myndi vilja benda á. Það eru engin merki í afgreiðslu þessara fjárlaga um breytt vinnubrögð á þingi. Öllum breytingartillögum minni hluta hefur kerfisbundið verið hafnað og það hefur ekki verið bryddað upp á minnstu samræðum, umræðum né sýnd viðleitni til þess að kanna hvort hægt væri að ná saman um einhverjar þær minnstu breytingar sem minni hlutinn hefur haft fram að færa. Hér er hefðbundið meirihlutaræði. Það má vel vera, og er þá stjórninni vorkunn, að það sé svo erfitt að ná samstöðu innan stjórnarinnar um þær áherslur sem hér eru að finna að hún hafi einfaldlega ekki efni á neinum málamiðlunum gagnvart minni hluta. Það veit þá alla vega á framhald samstarfs meiri hluta og minni hluta í þinginu á komandi misserum, ef sú er raunin.

Þessu til dæmis er áhersla minni hlutans á að endurreisa, þó ekki nema að hluta, þau stuðningskerfi við lágtekjuhópana sem felast í barnabótum og vaxtabótum. Það er alveg ljóst og hefur ítrekað verið bent á að þessi kerfi hafa drabbast verulega niður á undanförnum árum. Nú er það svo að skerðing barnabóta hefst langt fyrir neðan lágmarkslaun í landinu og skerðing á vaxtabótum hefst langt fyrir neðan eðlileg eignaviðmið í hóflegum fasteignum venjulegs fjölskyldufólks. Það er verið að slá út tekjulága einstaklinga, einstæða foreldra, á eignaviðmiði um lágmarkseignarhlut í hóflegri íbúð. Það getur ekki verið tilgangur þessara kerfa. Stjórnarandstaðan eða minni hlutinn lagði fram tillögur til að fjármagna þá 3 milljarða sem þyrfti til til að endurreisa þau kerfi að hluta. Þeim var einnig hafnað.

Það er mjög sérstakt að horfa upp á slíkar áherslur á sama tíma og aðrar breytingar, t.d. á því fjárlagafrumvarpi sem lagt var fram í haust, eins og t.d. hækkun kolefnisgjalds, eru lækkaðar verulega, skertar um helming, sem þýðir tekjutap fyrir ríkissjóð upp á um 2 milljarða. Á sama tíma er tekin ákvörðun um að halda áfram niðurgreiðslu til einnar stöndugustu atvinnugreinar landsmanna upp á 1,5 milljarða á næsta ári. Þessir tveir litlu þættir hefðu dugað til að fjármagna þær breytingar sem minni hlutinn lagði til en því var hafnað, sem og breytingartillögum um að láta af þessari einkennilegu forgangsröðun.

Það verður að segjast eins og er að þótt ég geti tekið undir margar af þeim áherslum sem er að finna í fjárlagafrumvarpinu, sér í lagi hvað varðar uppbyggingu í heilbrigðiskerfinu, og flestar eru þessar áherslur í takt við þær áherslur sem var að finna hjá fyrri ríkisstjórn, þá er ekkert sérlega áferðarfallegt að hér sé verið að hátta forgangsröðun þannig að hagsmunum tekjulægstu einstaklinganna í samfélaginu er fórnað fyrir niðurgreiðslu til einnar stöndugustu atvinnugreinar landsins, undirstöðuatvinnugreinar landsins, og fyrri áform um hækkun kolefnisgjalds helminguð.

Það er ágætt að hafa í huga í þeirri umræðu, því að ég veit að Sjálfstæðismenn hafa ekki verið neitt sérstaklega grænir í hugsun og ekkert sérstaklega trúaðir á virkni grænna skatta, að þeim sköttum er beinlínis ætlað að eyða þessum gjaldstofni, að hvetja fólk til að nýta aðra orkugjafa. Það er mjög mikilvægur liður í viðleitni okkar í þá veru og við vitum að okkar bíður verulegur kostnaður við uppkaup losunarheimilda innan ekki svo langs tíma ef við náum ekki að gera betur en við höfum verið að gera í þeim málum. Þetta er spurning um forgangsröðun. Þessi forgangsröðun er hvorki græn né sérlega væn þegar kemur að velferðarmálum.

Mér finnst þegar við tölum um þessi mál vera notuð mjög stór lýsingarorð um það hvað sé verið að gera. Það er talað um stórsókn á hinum og þessum sviðum. Ég vil gefa ríkisstjórninni aðeins lengri tíma til að sýna sig og sanna en ég held að það færi ágætlega á því að stunda aðeins minna af ásýndarstjórnmálum og sýna frekar framkvæmdirnar í verki og vilja til raunverulegra breytinga. Það fer nefnilega mjög lítið fyrir vilja til raunverulegra kerfisbreytinga, til að fara betur með það fjármagn sem ríkissjóður ver á hverju ári, og hefur ítrekað verið bent á bæði í heilbrigðis- og menntakerfi að þar sé ekki lausn að ausa einungis meiri fjármunum í það heldur þurfi að ráðast í raunverulegar kerfisbreytingar. Fyrir þeirri umræðu fer afskaplega lítið í áherslum ríkisstjórnarinnar, á fyrstu metrunum alla vega.

Margar áherslur fjárlagafrumvarpsins eru svipaðar fjárlagafrumvarpi fyrri ríkisstjórnar, enda í sjálfu sér í heildarsamhenginu ekki um neina stórkostlega útgjaldaaukningu að ræða þegar í prósentum er talið, en dregið er úr aðhaldsstigi ríkisfjármálanna. Það er hætta á því að það muni hafa afleiðingar fyrir okkur þegar fram í sækir. Það er auðvitað þannig að útgjaldaloforð þarf að fjármagna ef það á að mæta ábyrgð í ríkisfjármálum. Um það hefur ítrekað verið talað.

Það er sorglegt að horfa til þess að fyrir aðeins ári síðan voru allir flokkar, sem voru með mjög ólíkar áherslur í fjárlagaumræðunni, ýmist til verulegrar útgjaldaaukningar eða aðhalds, sammála um það að mikilvægt væri að aðhaldsstigið væri fyrir hendi, þannig að ef verið væri að leggja fram tillögur um verulega útgjaldaaukningu þyrfti því einfaldlega að fylgja fjármögnun.

Hér er ekki um það að ræða. Það sem verra er er að ef marka má yfirlýsingar stjórnarflokkanna er þetta aðeins byrjunin. Það verður haldið áfram á sömu vegferð; að auka útgjöld en boðað skattalækkanir ofan í þau auknu útgjöld, enda liggur það fyrir í drögum að fjármálastefnu að aðhald ríkisfjármálanna muni minnka verulega á komandi misserum með tilheyrandi afleiðingum fyrir efnahagslífið. Við því vil ég vara. Við höfum gert þau mistök áður. Það reyndist okkur afar illa, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Við vitum alveg afleiðingar þess t.d. að hér sé ekki gengið harðar fram í niðurgreiðslu skulda við það góðæri sem við búum nú. Það verður ríkissjóði mjög þungbært að bera 70 milljarða vaxtabyrði þegar kólna tekur í hagkerfinu aftur og eiga að standa undir þeim kröfum sem gerðar eru til velferðarkerfisins, til heilbrigðiskerfisins. Það er alveg ljóst að sú stefna gengur ekki upp til lengdar og mun vafalítið reynast ríkisstjórninni mjög þung þegar fram í sækir.