148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[19:57]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Ólafur Ísleifsson) (Flf):

Herra forseti. Ég mun ekki lengja umræðuna mikið þegar svona áliðið er orðið, en það hefði nú verið ánægjulegt ef við hefðum verið að fjalla um stærri skref en stigin eru í þágu þeirra sem standa höllustum fæti í íslensku samfélagi og sömuleiðis ef við værum að ganga lengra en raun ber vitni varðandi það að styrkja innviði íslensks samfélags, til að mynda á sviði heilbrigðismála. Þetta er auðvitað afleiðing af því að málum hefur verið raðað í forgang á þann veg sem raun ber vitni. Þetta er afleiðing af því að menn hafa stillt af tekjuöflunarkerfið með þeim hætti sem raun ber vitni. Í því sambandi má tala um nokkra eftirgjöf, ef ég má leyfa mér að nota það orð, varðandi mikilvæga stofna, en það er líka vegna þess að sumir tekjupóstar eru kannski notaðir meir en góðu hófi gegnir. Ég nefni það til að mynda að ríkissjóður byggir afkomu sína að of miklu leyti á því að skattleggja tekjur undir framfærsluviðmiðum sem sjálft Stjórnarráðið birtir á vefsíðu velferðarráðuneytisins. Eru það engar ýkjur þó sagt sé að þar með sé verið að skattleggja fátækt í landinu.

Frú forseti. Ég vil leyfa mér að vekja athygli enn einu sinni á hinni mikilvægu skýrslu sem Alþýðusamband Íslands sendi frá sér á síðastliðnu sumri, í ágúst, sem fjallar um skattbyrði launafólks 1998–2016. Þar er sýnt fram á að skattbyrði hefur á þessu tímabili hækkað í öllum tekjuhópum, en mest hjá þeim sem minnst bera úr býtum.

Sama skýrsla leiðir í ljós að mikilvæg bótakerfi, sem eru tengd tekjuskattskerfinu, vaxtabótakerfi, barnabótakerfi, hafa verið látin drabbast niður. Varðandi vaxtabæturnar þá er það þannig að bótafjárhæðir hafa ekki hækkað í takt við laun og skerðingarmörk hafa ekki hækkað í takt við fasteignaverð. Þetta hefur leitt til þess að vaxtabætur styðja nú einungis við þá allra tekjulægstu eða einstaklinga í afar smáum eignum. Tekjulágt barnafólk með lágmarksfé, 20%, í húsnæði sínu fær lítinn sem engan stuðning í gegnum vaxtabótakerfið.

Hvað varðar barnabótakerfið þá er það veikt, stenst náttúrlega ekki samanburð við þau kerfi sem við lýði eru á Norðurlöndum og í þeim löndum sem við viljum allra helst bera okkur saman við. Bótafjárhæðir hafa rýrnað að raungildi, tekjuskerðingar hafa aukist. Þetta hefur leitt af sér aukna skattbyrði tekjulægra launafólks með börn á framfæri umfram annarra.

Á því er vakin athygli í þessari mikilvægu skýrslu Alþýðusambandsins að pör með börn sem hafa tekjur við neðri fjórðungsmörk fá nánast enga skattaívilnun vegna framfærslu barna og hafa nánast sömu skattbyrði og þeir sem engin börn hafa á framfæri. Það er algerlega óviðunandi að þessi bótakerfi skuli ekki styðja betur en raun ber vitni við barnafjölskyldur og þá einkanlega þær sem minnst bera úr býtum.

Sömuleiðis er ástæða til þess að lýsa alvarlegum vonbrigðum með það að sameiginleg tillaga minnihlutaflokkanna, um að skerðing á barnabótum hefjist ekki fyrr en lágmarkstekjum er náð, skyldi felld hér á Alþingi. Nú er það svo að barnabætur byrja að skerðast langt undir lágmarkslaunum.

Frú forseti. Mig langar að lokum að segja örfá orð varðandi heilbrigðiskerfið. Ekki var veitt neitt viðbótarfjármagn til hjúkrunarheimila. Fulltrúar þessara aðila komu á fund fjárlaganefndar og lýstu þungum áhyggjum sínum. Hið sama á við um forráðamenn SÁÁ sem ekki hafa nægilegt fjármagn til að veita þá bráða- og langtímaþjónustu sem nauðsynleg er vegna hins mikla vanda sem við er að glíma á því sviði.

Öryggisnet sjúkraþjónustu í hinum dreifðu byggðum er auðvitað afar mikilvægt. Það ber að nefna hér, til þess að fyllstu sanngirnis sé gætt, að sjúkrastofnanir á landsbyggðinni fengu nokkra viðbót; svo langt sem hún náði þá ber vissulega að meta hana.

Staðreyndin er sú að um land allt eru biðlistar eftir aðgerðum. Vegna þess skorts sem við er að eiga varðandi hjúkrunarheimili komast eldri borgarar, sem hefðu heilsu til þess að fara á slík heimili, ekki þangað vegna þess að það er ekki rými. Þar með teppa þeir rúm og halda starfsfólki, sem þarf til að sinna þeim á sjúkrastofnunum, uppteknu. Auðvitað ætti það ekki að vera þannig, starfsfólkið þar ætti að sjálfsögðu að vera að sinna annars konar sjúklingum.

Hér er mikið verk að vinna. Það þarf að rétta hlut þeirra sem höllustum fæti standa með miklu ákveðnari hætti en leitast er við að gera í þessu frumvarpi. Ég vil ljúka máli mínu á því að segja: Það er ákaflega skiljanlegt að sú fyrirhugaða 4,7% hækkun sem á að taka gildi nú í upphafi næsta mánaðar er langt undir því sem kjaraþróun í landinu undanfarin misseri gefur tilefni til. Þar að auki er sú hækkun reist á viðmiðum um hækkun á vísitölu neysluverðs en ekki á launavísitölu í andstöðu við meginstefnu þess ákvæðis sem við á um þetta efni í lögum um almannatryggingar.