148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[20:13]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Ólafur Ísleifsson) (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Ég gleðst yfir því að við hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson höfum að minni hyggju sams konar markmið í huga, þ.e. að nota þetta kerfi í þágu þeirra sem lakast standa. Þetta er nú eins konar tekjujöfnun sem ekki er vinsæl á öllum bæjum. En það blasir auðvitað við að hægt er innan þessa kerfis að stilla það af með margvíslegum hætti til að ná þessum markmiðum. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að hafa með afar greinandi hætti dregið upp ýmsa fleiri kosti í því sem við höfum að sjálfsögðu hugleitt.

Það er alveg greinilegt að Alþýðusambandið telur að persónuafsláttur ætti að réttu lagi að fylgja launaþróun. Að sjálfsögðu er ártalið 1998 ekkert heilagt í þessu.

En mig langar til að vekja athygli á reikningsdæmum aftast í skýrslunni þar sem fjallað er um skattbyrði og ég vil sérstaklega vekja athygli á því að í þessum dæmum kemur fram að hefði persónuafsláttur fylgt þeirri þróun sem orðið hefur á launum á þessu tímabili þá væru tekjulægstu fjölskyldurnar með á bilinu 100 þús. til 135 þús. kr., miðað við það sem kemur fram í skýrslunni, meira í ráðstöfunartekjur á mánuði en þær hafa núna. Það sjá allir menn, frú forseti, að fyrir fólk á lægstu tekjum eru ráðstöfunartekjur upp á 100 þús. kr. til 135 þús. kr. fé sem verulega munar um.