148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[23:56]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Hæstv. forseti. Fyrir tæpu ári lýsti ég yfir þeim áhyggjum að forseti Bandaríkjanna væri fasisti, rasisti og kvenhatari. Mér hefur hann þótt ganga ansi langt í að uppfylla þessar áhyggjur mínar. Hann hefur núna líka sýnt að hann er þessi týpa, þessi gamli maður sem hrópar á skýin, nema hann hefur líka yfir kjarnorkuvopnum að ráða og gríðarlegum fjármunum sem geta haft áhrif á okkur öll.

Mér þykir samt sem áður einsýnt að við hér á þessu þingi getum tekið okkar afstöðu og sagt að við sýnum svona mönnum að samstaða annarra þjóða getur skipt sköpum þegar kemur að frekjustælum eins og þessum í forseta Bandaríkjanna sem bætast ofan á allt annað. Þetta er hófleg tillaga. Hún miðar að því að við ríðum á vaðið, að við sýnum samstöðu með öðrum þjóðum og viljum vinna að uppbyggingu þessara mikilvægustu alþjóðasamtaka sem við eigum, Sameinuðu þjóðanna, sem hafa (Forseti hringir.) oft og tíðum haldið fyrir okkur friðinn.

Ég segi já.