148. löggjafarþing — 13. fundur,  30. des. 2017.

veiting ríkisborgararéttar.

75. mál
[00:16]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Ég greiði atkvæði í þessu máli með því að greiða í rauninni ekki atkvæði í samræmi við aðrar atkvæðagreiðslur mínar í þessum málum á undanförnum þingum með samsvarandi atkvæðaskýringu og ég hef einnig flutt á fyrri þingum.

Alþingi veitir ríkisborgararétt með lögum. Sú heimild verður auðvitað ekki af Alþingi tekin. Hún er eðlileg og Alþingi á að geta veitt ríkisborgararétt með lögum. Að mínu viti verður þó sú veiting að vera með nægum rökum. Ég tel þá afgreiðslu þingsins eins og hún hefur verið í framkvæmd undanfarin ár ekki í samræmi við þá stjórnsýslu eða það gagnsæi sem best yrði á kosið. Ég hef áður boðað breytingu á lögum um ríkisborgararétt og vonast til þess að fá tækifæri til að kynna hana hér á vorþingi. Ég tel (Forseti hringir.) fara betur á því að þetta sé með öllum hætti afgreitt í stjórnsýslunni.

Að þessu sögðu vil ég hins vegar (Forseti hringir.) óska öllum þeim einstaklingum sem hér er veittur ríkisborgararéttur til hamingju með ríkisborgararéttinn ásamt þeim (Forseti hringir.) rúmlega 500 (Forseti hringir.) einstaklingum sem hefur verið veittur ríkisborgararéttur allt þetta ár.