148. löggjafarþing — 18. fundur,  30. jan. 2018.

óháð, fagleg staðarvalsgreining fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús.

88. mál
[15:48]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skal reyna að útskýra þetta aðeins. Það er tækifæri til þess að byggja nýtt sjúkrahús á nýjum stað. Sá gluggi lokast bráðum, þ.e. tækifærið glatast til að fara strax í það ferli að byggja nýtt sjúkrahús á nýjum stað og þá án þess að hefja ákveðnar framkvæmdir sem eru áætlaðar við Hringbraut.

Ég held að sá gluggi sé lokaður en í þingsályktunartillögunni er gert ráð fyrir að hann sé kannski enn þá opinn, sem gæti vel verið. Það kæmi væntanlega í ljós í greiningunni hvort það hentaði eða ekki. Þar liggur munurinn á afstöðu minni gagnvart því hvort tækifæri sé til þess akkúrat núna að hoppa á nýjan stað. Þá myndi uppbygging ekki eiga sér stað á Hringbraut heldur annars staðar og við myndum síðan velta því áfram á nýja staðsetningu þjóðarsjúkrahússins.

Það sem ég er að reyna að segja er að tækifærið gengur okkur úr greipum. Ég giska á, og nú er ég að giska, að við missum af því tækifæri, sem hefði áhrif á greinargerðina í frumvarpinu. Flutningsmenn álykta kannski sem svo, og nú er ég aftur að giska hvað þau varðar, að sá gluggi sé ekki lokaður. Í því felst munurinn. Mér finnst hann ekki flókinn, þingsályktunartillagan sem slík stendur alveg fyrir sínu. Þetta er náttúrlega greining á staðarvali.