148. löggjafarþing — 18. fundur,  30. jan. 2018.

óháð, fagleg staðarvalsgreining fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús.

88. mál
[16:04]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þætti vænt um ef hv. þingmaður deildi þá með mér og áhorfendum sinni sýn á hvaða áhrif það hefði á aðgengi almennings að viðunandi og nauðsynlegri heilsugæslu í ljósi þess að þá yrðu væntanlega tafir á byggingu meðferðarkjarnans. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki sökkt mér í það mál að svo miklu marki að ég geti haft uppi einhverjar fullyrðingar um hvaða áhrif tiltekin ákvörðun hefði til eða frá. Ég fylgi stefnu flokks míns og tek upplýstar ákvarðanir eftir fremsta megni. En það er líka liður í því þá að við séum með á hreinu hvar við stöndum gagnvart afleiðingum þeirra ákvarðana sem við tökum. Hvaða afleiðingar hefur það t.d. að fresta byggingu meðferðarkjarnans? Það hlýtur að vera lykilspurningin í þeim ágreiningi sem er á Alþingi um það mál, að fólk sé með sameiginleg sýn á hverjar afleiðingarnar séu.

Allt það sem hv. þingmaður getur frætt mig um það efni þigg ég með þökkum.

Svo er reyndar annað. Maður á svo sem ekki að vera með tvær spurningar í einu andsvari ef út í það er farið, en ég náði þessu nú á einni mínútu. En ég er svolítið ringlaður yfir hvernig stjórnmálamenn tala hver við annan um hvað þeir hafi stutt og hvað ekki. Ég fæ ekki betur séð en að þingsályktun sé samþykkt á Alþingi 16. maí 2014 þar sem segir, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að ljúka eins fljótt og verða má undirbúningi á endurnýjun og uppbyggingu Landspítala við Hringbraut í Reykjavík og hefja framkvæmdir þegar fjármögnun hefur verið tryggð.“

Með henni greiddu allir viðstaddir atkvæði, þar á meðal hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og sá sem hér stendur. Ég vildi bara henda þessu fram því að mér fannst það vera í svolitlu ósamræmi við það sem hv. þingmaður fór yfir í ræðu sinni. Ég nefni það aðallega vegna þess að ég er svolítið hissa á því hvernig menn kenna hver öðrum um, hver hafi stutt hvað hvenær, frekar en að nálgast viðfangsefnið út frá mati á afleiðingum gjörða sinna. (Forseti hringir.) Ég hendi þessu ekki fram til að skamma hv. þingmann, en mér leikur forvitni á að vita hvernig á því standi.