148. löggjafarþing — 18. fundur,  30. jan. 2018.

óháð, fagleg staðarvalsgreining fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús.

88. mál
[17:25]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Í þeim meðferðarkjarna sem verið er að tala um er reiknað með að þar verði bráðamóttaka, myndgreining, skurðstofur, gjörgæsla, einhver endurhæfing, sjúkrahúsapótek, dauðhreinsun og 180 legurými þegar það klárast. Það er mjög lítill hluti af þeim legurýmum sem eru í heild á spítalanum.

Það er erfitt að segja til um hverju það myndi breyta þó að hann væri ekki byggður þarna eða hann byggður annars staðar. Auðvitað færi þessi þjónusta áfram fram á þeim stöðum þar sem Landspítalinn er núna eðli málsins samkvæmt. En samlegðaráhrifin af því að byggja meðferðarkjarnann annars staðar og byggja síðan restina af spítalanum einhvers staðar annars staðar koma náttúrlega ekki í ljós fyrr en í lok alls framkvæmdatímans.