148. löggjafarþing — 19. fundur,  31. jan. 2018.

störf þingsins.

[15:02]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Nýlega hafa verið kynntar tvær skýrslur um stöðu og framtíðarsýn á húsnæðismarkaði. Staðan sem þar birtist er ekkert sérstaklega góð. Við stjórnvöld þurfum að bregðast við þeim ábendingum sem þar birtast með markvissum aðgerðum.

Í skýrslu hagdeildar Íbúðalánasjóðs kemur m.a. fram að íbúðum þyrfti að fjölga um 17.000 á árunum 2017–2019 til að mæta uppsöfnuðum skorti og undirliggjandi þörf. Ólíklegt þykir að uppsafnaður skortur á íbúðum frá árinu 2012 hverfi alveg á næstu tveimur árum. Til samanburðar voru 1.500 íbúðir byggðar árið 2016. Von er á tölum um nýbyggingar og fólksfjölgun fyrir nýliðið ár sem munu varpa frekara ljósi á stöðuna.

Ný skýrsla greiningardeildar Arion banka var kynnt í morgun. Samkvæmt þeirri greiningu mun húsnæðisverð á landinu hækka um 6,6% á árinu 2018 og árið 2019 er gert ráð fyrir 4,1% hækkun og 2,3% hækkun árið 2020. Í greiningunni kemur jafnframt fram að útlit sé fyrir að framboðshliðin verði áfram sein að bregðast við en á tímabilinu 2018–2020 metur greiningardeildin að byggja þurfi 9.000 íbúðir.

Verði eftirspurn meiri en gert er ráð fyrir er spáð að húsnæðisverð geti hækkað um u.þ.b. 9% að meðaltali yfir árið 2018.

Framsóknarflokkurinn hefur ávallt lagt mikla áherslu á húsnæðismál. Á kjörtímabilinu 2013–2016 afgreiddi þingið fjögur afar mikilvæg húsnæðisfrumvörp þáverandi hæstv. húsnæðismálaráðherra, Eyglóar Harðardóttur, m.a. um byggingu almennra íbúða og húsnæðisbætur. Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar er kveðið á um að ríkisstjórnin beiti sér fyrir umbótum í húsnæðismálum. Ríkisstjórnin ætlar að fara í aðgerðir sem lækka þröskuld ungs fólks og tekjulágra inn á húsnæðismarkaðinn. Meðal annars verða skoðaðir möguleikar á að hægt verði að nýta lífeyrissparnað til þessa og ríkisstjórnin ætlar líka að hefja skoðun á því hvernig fjarlægja megi fasteignaverð úr mælingu neysluvísitölunnar. Ég hvet ríkisstjórnina til dáða og markvissra aðgerða.