148. löggjafarþing — 19. fundur,  31. jan. 2018.

störf þingsins.

[15:31]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég held að ég geti fullyrt að kynferðisafbrot gegn börnum séu viðbjóðslegustu glæpir sem framdir eru. Því koma fréttir af því þegar starfsmaður barnaverndaryfirvalda hefur verið kærður fyrir gróft kynferðisofbeldi gegn börnum í krafti starfa sinna eins og þruma úr heiðskíru lofti.

Nú virðist sem starfsmaðurinn sem kærður hafi verið fyrir kynferðisbrot gegn börnum árið 2010 hafi fengið að starfa hjá barnaverndaryfirvöldum eftir það og að þegar sami aðili var kærður aftur í ágúst sl. fyrir kynferðisbrot hafi hann starfað áfram hjá barnaverndaryfirvöldum í um hálft ár.

Lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins hefur harmað mistök lögreglu. Við getum öll gert mistök en í málum er varða börn og ofbeldi gegn þeim verða þau mistök því miður oft óafsakanleg. Svo virðist sem í báðum tilvikum hafi lögreglunni láðst að tilkynna Barnavernd Reykjavíkur að starfsmaður hjá henni hafi verið kærður fyrir svo alvarlegt brot og að kærurnar hafi ekki með neinu móti komið fram í ráðningarferli mannsins innan Barnaverndar.

Ég ætla ekki að nýta liðinn um störf þingsins til að hnýta í starfslag og verkferla ríkisstofnana en ég vek athygli á þeim atriðum í þeim hörmulegu málum er snúa að þinginu. Því miður er þetta mál enn ein birtingarmynd þess að við sem samfélag tryggjum ekki að berskjölduðustu þegnar íslensks samfélags, börnin okkar, séu tryggðir og varðir fyrir kynferðisafbrotamönnum sem nýta sér ekki bara aldurs- og valdayfirburði heldur sækjast eftir því að vera innan um börn sem eru í veikri félagslegri stöðu. #höfumhátt-hreyfingin sl. sumar snerist akkúrat um það og #metoo-bylgjan líka. Þetta þarf að laga strax, ekki með neinum starfshópum heldur aðgerðum. Ef það er eitthvað sem þarf að laga í lagabókstafnum sem lýtur að því að útvíkka enn frekar heimildir til að opna sakaskrár þegar fólk er ráðið til starfa með börnum þarf að laga það. Ef það er eitthvað sem þarf að laga í að minnka álag á lögreglufólk með því að auka loks fjármuni til lögreglunnar skulum við gera það.

Félags- og jafnréttismálaráðherra fer með yfirstjórn barnaverndarmála á Íslandi og ég kalla eftir því að hann stígi ákveðið niður fæti í samráði við barnaverndaryfirvöld til að tryggja að börn sem eru í umsjón barnaverndaryfirvalda séu ekki innan um kærða kynferðisbrotamenn. Dómsmálaráðherra er yfirmaður lögreglu í landinu. Ég kalla (Forseti hringir.) eftir því að hann berjist í eitt skipti fyrir öll fyrir bættum fjárhag og auknum mannafla hjá lögreglunni. Lögreglan á ekki að vera svo fjárþurfi og mannaflsþurfi (Forseti hringir.) að kærur um kynferðisofbeldi gegn börnum endi í þykkum málastafla (Forseti hringir.) á skrifborðinu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Við getum gert betur.