148. löggjafarþing — 19. fundur,  31. jan. 2018.

stjórn fiskveiða.

6. mál
[16:13]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að þakka hv. flutningsmanni máls, Oddnýju G. Harðardóttur, fyrir frumvarpið. Þetta er mjög skemmtileg nálgun á það hvernig við getum byrjað að leysa vandamál sem mjög margir landsmenn upplifa sem ósanngirni þegar kemur að því hverjir fá að nýta og hvað þeir þurfa að greiða fyrir sameiginlega auðlind landsmanna. Ég ætla að ræða það sem þingmaðurinn talaði um í andsvari. Þetta lærði ég þegar við vorum í samningaviðræðum fimm flokka fyrir rúmu ári síðan um það hvernig væri hægt að byrja það ferli að bjóða út kvóta sem flokkurinn okkar og Samfylkingar, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar vorum öll sammála um og Vinstri græn eru að hluta til sammála um, af því að þau eru tilbúin í stefnu sinni upp að 1/3 að boðið sé upp á markaði, og vorum við komin áleiðis með það. En þetta er nálgun sem ég hafði ekki heyrt.

Hvað varðar þrjú atriði sjálfbærni er kerfið sett á vegna raunverulegrar þarfar. Það er ofveiði. Þá er sett takmörkun til að tryggja sjálfbærni fiskveiðiauðlindarinnar sjálfrar, sem er klárlega eitthvað sem var gert en hvernig það var gert og úthlutað vegna þriggja ára veiðireynslu er mjög gagnrýnivert. Síðan er það framsalið sem tryggir ákveðna efnahagslega skilvirkni í kerfinu, en ef við erum ekki með samfélagslega þáttinn, þann félagslega, er aldrei hægt að tryggja stöðugleika. Það segja fiskútgerðarmenn sjálfir, þeir vita ekki alveg hvernig kerfið lítur út. Pólitíkin gæti breytt því og því hafa menn kvartað yfir. Menn hafa kvartað yfir því að fá ekki þennan stöðugleika. Hvers vegna næst hann ekki? Stöðugleiki næst ekki ef mikill hluti landsmanna telur kerfið ósanngjarnt, þá ná menn ekki pólitískum stöðugleika um málið. Það verður alltaf bitbein. Þetta var ein leið til að byrja að fara í þá átt að úthluta kvóta á þann hátt að hæstbjóðandi borgi fyrir það. Varðandi það að sýna sanngirni þegar kemur að smábátum og byggðarlögum er það klárlega hægt í útboðinu, en (Forseti hringir.) þingmaðurinn kom inn á það. Mig langaði að taka saman það sem ég hafði lært og hvers vegna ég er ánægður með frumvarpið (Forseti hringir.) og gefa þingmönnum tækifæri á að bregðast við.