148. löggjafarþing — 19. fundur,  31. jan. 2018.

stjórn fiskveiða.

6. mál
[17:00]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir þessa innblásnu ræðu. Hún svaraði í raun því sem ég ætlaði að spyrja hana um í lok ræðu sinnar, þegar hún talaði um að hún væri ekki sammála því frumvarpi sem er hér til umræðu, en samt og þó. Þingmaðurinn fór vel yfir fiskveiðistjórnarkerfið og sögu þess á þessum fáu mínútum og hvernig þetta kom til á sínum tíma. Ég er henni sammála í því.

Mig langar að spyrja þingmanninn: Hún talaði um sanngjarnt auðlindagjald. Nú var það svo að auðlindagjaldið, eins og það er reiknað út í dag, er reiknað út frá afkomutölum útgerðarinnar. Reyndar er það gagnrýnt, eins og ég kom inn á í ræðu í dag í störfum þingsins, og margir gagnrýna hvernig það er reiknað út, að það er reiknað út tvö ár aftur í tímann. Eins og gerist núna þá er það skellur fyrir útgerðina að þurfa að borga fyrir hið góða afkomuár 2015 á árinu 2018 þar sem síðasta ár var mjög magurt afkomulega séð fyrir útgerðina.

Ég spyr: Hvað er sanngjarnt auðlindagjald þegar þetta er reiknað út frá afkomutölum, raunverulegum tölum? Er það ekki svo að þær séu raunverulegar? Hvernig getum við þá fundið út sanngjarnara gjald?