148. löggjafarþing — 19. fundur,  31. jan. 2018.

almenn hegningarlög.

37. mál
[17:45]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Til umræðu er þriðja forgangsmál okkar Pírata um breytingu á almennum hegningarlögum til þess að gera stafrænt kynferðisofbeldi refsivert. Í fyrsta lagi vil ég tala um nauðsyn þess að setja þessi lög í samhengi við mannréttindi og það eru mannréttindaskuldbindingar sem Ísland hefur tekið sér á hendur með samþykkt mannréttindasáttmála Evrópu. Í dómum Mannréttindadómstóls Evrópu hafa komið fram skýr merki þess að aðildarríki samningsins þurfa að uppfylla jákvæðar skyldur til þess að vernda sem best réttindi fólks, samkvæmt 8. gr. samningsins, þ.e. réttindi fólks til friðhelgi einkalífs. Þau réttindi ná líka utan um líkamlega friðhelgi og sálarlega friðhelgi, ef svo mætti að orði komast. Ber ríkjum, sem eru aðilar að þessum samningi, að tryggja með aðgerðum af sinni hálfu að þessi mikilsverðu réttindi séu tryggð með fullnægjandi hætti innan síns yfirráðasvæðis.

Með því að afmarka þetta athæfi í lögum sem refsivert erum við að senda skýr skilaboð um að brot sem þetta á friðhelgi einstaklinga, á friðhelgi líkama þeirra og sálar, séu ekki leyfð í íslensku samfélagi. Þar með er líka borgurum þessa lands orðið alveg ljóst að hegðun sem þessi líðst ekki og er refsiverð samkvæmt íslenskum lögum. Þetta er mikilvægt í því ljósi sem oft er kallað skýrleiki refsiheimilda, sem er, eins og flestir í þessum sal vita, mjög sterkur fylgifiskur réttarríkisins, þ.e. að borgararnir geti gert sér grein fyrir því til hvers er ætlast af þeim, hvað þeir megi og hvað þeir megi ekki gera. Þetta er mjög mikilvægt í réttarríki. Í þessu ljósi tel ég líka mjög mikilvægt að við setjum þessa grein, þar sem kemur einfaldlega skýrt fram að ekki megi dreifa myndefni af einstaklingum sem sýnir nekt eða kynferðislega hegðun einstaklings, án samþykkis hans, að sú athöfn sé bönnuð með lögum.

Það hefur verið komið aðeins inn á að 209. gr. almennra hegningarlaga nái að einhverju leyti utan um þetta. En það hljóta allir sem það mál skoða að gera sér grein fyrir því að orðalagið „að særa blygðunarkennd manna“ er frekar snautlegt fyrir það ofbeldi sem á sér stað þegar stafrænt kynferðisofbeldi er stundað. Í þessu ljósi erum við að leggja þetta fram, herra forseti. Við viljum afmarka og skilgreina og viðurkenna það ofbeldi sem felst í verknaði af þessu tagi. Við viljum líka að þetta verði lögreglunni hvatning til þess að taka betur á þessum málum, til þess að vinna betur að þeim og til þess að efla og auka sérþekkingu sína í þessum málaflokki.

Í þessu ljósi langar mig að benda á nokkur atriði sem hafa verið til vansa og hafa unnið gegn því að brotaþolar geti með fullnægjandi hætti kært þessi brot, leitað réttar síns og fundið fyrir einhvers konar réttlæti eftir að brotið hefur verið á þeim. Vinkona mín, baráttukonan Júlía Birgisdóttir, hefur verið einn ötulasti talsmaður þess að stafrænu kynferðisofbeldi verði sett mörk í lögum, verði bannað með lögum. Hún hefur á mjög áhrifaríkan hátt lýst reynslu sinni af því að kæra brot sem þetta og þeim hindrunum og þeim sárindum sem fylgdu því ferli öllu. Hún lýsti því meðal annars hvernig lögreglan vildi láta hana afhenda á minnislykli myndbandið af henni sem dreift hafði verið án hennar samþykkis til þess að málið fengi að ganga áfram. Þarna var lögreglan á höfuðborgarsvæðinu að biðja um afrit af brotinu gegn henni og að hún skyldi afhenda það. Það lýsir, held ég, ákveðnum skorti á skilningi og vanvirðingu gagnvart því ofbeldi sem þarna á sér stað að láta þetta yfir hana ganga. En þetta er greinilega almennt verklag og viðhorf lögreglu að fólk þurfi að mæta með sönnunargögnin. Það er ekki nóg að vísa þeim í rétta átt eða segja: Þarna er þetta að finna eða svona er þetta. Fólk þarf að koma með afrit eða svo er að sjá af frétt í Vísi þar sem rætt er við yfirmann kynferðisbrotadeildar lögreglunnar, Árna Þór Sigmundsson.

Í frétt frá því í mars 2017 segir hann:

„… að ef fólk vilji kæra stafrænt kynferðisofbeldi til lögreglu þurfi það að koma með einhverskonar staðfestingu í skýrslutöku til lögreglunnar.

Ef að uppi eru grunsemdir um slíkt þá hefur viðkomandi væntanlega séð það sjálfur og getur prentað út eða bent okkur á viðkomandi vefslóð. Við þurfum að rannsaka tiltekin tilvik, ekki bara opnar grunsemdir um að nektarmyndir séu til einhvers staðar.“

Þetta viðhorf þarf að breytast og þá sérstaklega að lögreglan hafi frumkvæði að því að rannsaka brot sem þessi og að lögreglan viti líka hvert brotaþolar geta leitað. Eins og Júlía vinkona mín hefur upplifað þá gat lögreglan ekki sagt henni um hvaða brot gegn henni væri að ræða þegar myndbandi var dreift án hennar samþykkis.

Nýrri tækni eins og hér um ræðir fylgja bæði tækifæri og ógnir en það hefur tekið langan tíma að bregðast við og skilja þessa ógn. Að skilgreina þetta í lögum gerir þolendum þessara brota auðveldara fyrir að leita sér aðstoðar. En þetta kemur líka til með að hafa forvarnagildi þar sem þetta verður orðið að lögbroti. Okkur finnst að það þurfi hreinlega að vera skýrt hvað það er sem tekur á þessari tegund brota og að það heimfærist ekki á úrelta grein, 209. gr., þar sem talað er um „blygðunarsemisbrot“, brot sem ætlað var að ná yfir menn sem bera sig á opinberum vettvangi eða annað slíkt. Það er alls ekki sami hluturinn og það ber að skýra þessar reglur bæði í samræmi við skýrleika refsiheimilda sem og hinar augljósu jákvæðu skyldur á hendur hinu íslenska ríki að vernda friðhelgi einkalífs borgara sinna.

Að lokum vil ég taka fram að það þarf að vera skýrt að um kynferðisbrot er að ræða. Það þarf að vera skýrt að þetta er kynferðisofbeldi. Við erum sem samfélag að færast í átt frá því að skilgreina opinber úrræði, viðhorf, orðræðu, frá upplifun geranda til réttinda þolenda. Ef #metoo hefur kennt okkur eitthvað þá er það það að allt of oft er tekið allt of mikið mið af upplifun gerenda í stað þess að skoða hvaða áhrif gerðir gerenda hafa á líðan þolenda. Mig langar að lokum að taka nokkur dæmi um þetta þar sem upplifun gerenda er í brennidepli, þ.e. hvort þeir hafi notið kynferðislegrar nautnar af athöfnum sínum, sem geta fallið undir ákvæði 209. gr. sem nú er í gildi eða nauðgunarákvæði almennra hegningarlaga. Upplifun gerenda hefur oft fengið allt of mikið vægi og hefur verið notuð sem gjaldfelling á því hvort um kynferðisofbeldi hafi verið að ræða, að gerandinn hafi ekki upplifað kynferðilega ánægju af því að brjóta kynferðislega á einstaklingi. Þetta viðhorf þarf að heyra sögunni til og með þessu ákvæði hér, með þessu frumvarpi, erum við að leggja til að færa ábyrgðina af herðum þolenda, að þeir þurfi að sýna fram á, undir einhverjum úreltum lagabálki, að brotið hafi verið á þeim, beint í fangið á gerendum sem eiga alla ábyrgðina.