148. löggjafarþing — 19. fundur,  31. jan. 2018.

búvörulög og búnaðarlög.

64. mál
[19:34]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég hef litið svo á að við séum með heildarmynd, við séum með heildarkerfi utan um landbúnaðinn og innan þess séum við með ákveðið kerfi sem myndi heild utan um mjólkuriðnaðinn, sauðfjárbúskapinn o.s.frv. Ég hef fram að þessu ekki séð neina útfærslu á því hvað það mundi þýða fyrir þá heildarmynd, fyrir hagræðinguna sem við höfum séð og þarf áfram að eiga sér stað innan mjólkuriðnaðarins, hvernig menn eigi áfram að ná þeirri hagræðingu eða samspili söfnunar, framleiðslu, rekstri kúabúanna, allrar heildarmyndarinnar sem við erum með utan um reksturinn, ef þetta er tekið út. Það kann að vera að hægt sé að teikna upp þá mynd og selja hana með einhverjum hætti. Mér finnst sá rökstuðningur hins vegar ekki koma fram í frumvarpinu. Ég hef ekki fram til þessa, sem er kannski bara í dag, séð að þetta gangi upp á þennan hátt.

Það er ekki reynt í frumvarpinu, ef ég man rétt, að meta hvort afleiðingarnar geti verið neikvæðar fyrir heildarmyndina, þ.e. fyrir söluna, fyrir verðmyndunina sem kann að verða til, vegna þess að þegar á botninn er hvolft erum við náttúrlega alltaf að tala um það litla mengi sem Ísland er og þá fáu bændur sem framleiða mjólk í dag. Ég átta mig ekki alveg á því hvort rökstuðningurinn hefur komið fram fyrir því að það skipti engu máli að taka þetta út.