148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

embættisfærslur dómsmálaráðherra.

[10:38]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ákvörðun dómsmálaráðherra um að fara ekki eftir ráðleggingum hæfnisnefndar við skipan dómara í Landsrétt var lögbrot. Ákvörðunin var ekkert vafamál og ekki léttvæg miðað við gögn málsins. Þeir dómar sem fallið hafa í málinu voru ráðherra áfall að hennar sögn og á sama tíma var dómsmálaráðherra „bara ósammála“ dómnum.

Stöldrum aðeins við það álit dómsmálaráðherra. Ráðherra er ósammála niðurstöðu Hæstaréttar og þar með einnig niðurstöðu héraðsdóms. Íhugum hversu alvarlegt mál það er að dómsmálaráðherra geti bara sagst vera ósammála niðurstöðu Hæstaréttar og komist upp með það. Ef dómsmálaráðherra kemst upp með það án afleiðinga, af hverju geta þá ekki allir aðrir sem hljóta dóm í Hæstarétti eða hvaða öðru dómstigi sem er bara sagt það sama og komist hjá því að axla ábyrgð á brotum sínum? Málið er grafalvarlegt. Við megum ekki missa okkur í því að hlaupa á eftir hverri útskýringunni á fætur annarri sem kemur í kjölfarið. Þessi útskýring frá dómsmálaráðherra, „bara ósammála dómnum“, er grafalvarleg.