148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

embættisfærslur dómsmálaráðherra.

[10:46]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Alþingi liggur undir ámæli vegna embættisfærslu dómsmálaráðherra að ósekju. Með leyfi forseta vitna ég í grein sem Ragnar Aðalsteinsson, einn virtasti lögmaður landsins, skrifar í Kjarnann 30. janúar. Þar segir hann, með leyfi forseta:

„Alþingi brást skyldum sínum með alvarlegum hætti. Það gætti ekki að eftirlitshlutverki sínu með framkvæmdarvaldinu. Alþingi tempraði ekki vald framkvæmdarvaldsins heldur studdi ólögmætar ákvarðanir …“

Ég tel að þarna gangi lögmaðurinn heldur langt vegna þess að ég held að Alþingi hafi veitt dómsmálaráðherra atbeina að ákvörðunum sínum í góðri trú þrátt fyrir allt. Alþingi hafði einfaldlega ekki þær upplýsingar sem það þurfti að hafa í þessu máli til að taka vitlegar ákvarðanir um skipan dómara. Alþingi hafði ekki upplýsingar um þau miklu og eindregnu varnaðarorð (Forseti hringir.) sem embættismenn höfðu haft í frammi í þessu máli.