148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

embættisfærslur dómsmálaráðherra.

[11:03]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Okkur verður hér tíðrætt um embættisfærslu dómsmálaráðherra. Það er vegna þess að málið snýst ekki aðeins um þessa embættisfærslu eins og hún var þá heldur líka um störf þingsins og hvernig þingið á að geta treyst því að dómsmálaráðherra sé í góðri trú þegar hún færir fram einhver mál. Hún telur sig ekki þurfa að fara að ráðleggingum helstu sérfræðinga sinna og þingmenn kalla þær ráðleggingar hér „einhverja tölvupósta innan dómsmálaráðuneytisins“ sem sýnir mat þeirra á því. Þingið getur ekki treyst því að ekki sé um geðþóttaákvarðanir hennar að ræða eftirleiðis. Þingið þarf þess vegna ævinlega að skoða allan hennar málatilbúnað og tillögur undir smásjá.