148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

útlendingar.

42. mál
[12:29]
Horfa

Flm. (Rósa Björk Brynjólfsdóttir) (Vg) (andsvar):

Ég þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni fyrir svarið. Ég held að við getum verið sammála um það að við höfum hvorugt bakgrunn í tannlækningum eða vísindum, það er eitthvað sem við getum orðið ásátt um. En þessi aðferð við aldursgreiningu er farin að mæta stöðugri og skýrri andstöðu á alþjóðavísu. Hér heima á Íslandi hefur Rauði krossinn einmitt verið mjög harðorður að undanförnu gagnvart þessari tegund af aldursgreiningu.

Vissulega þarf líka að hafa í huga að við þurfum að hafa einhverja aðferð til að greina aldur og reyna að miða þá þjónustu sem í boði er við þann aldur sem hún á að miðast.

Þar sem hv. þingmaður hefur staðið hér í pontu og tekið þátt í þessari umræðu um aldur gefst líka tilefni til að velta því fyrir sér hvort 18 ára einstaklingur — sem kemur frá stríðshrjáðu landi, hefur upplifað miklar hörmungar, tekið á flótta, tekið þá ákvörðun í lífi sínu að rífa sig upp með rótum frá fjölskyldu, heimili, ættingjum og vinum vegna stríðsástands eða hörmunga, og endar svo hér á Íslandi í leit eftir alþjóðlegri vernd — eigi þá ekki sjálfkrafa rétt á sérhæfðri þjónustu er lýtur að reynslu viðkomandi frekar en að niðurnjörva þá þjónustu við aldurinn eingöngu, þ.e. að reynsla einstaklingsins sé þá tekin inn í þá þjónustu sem veitt er.

Mig langar að heyra í örstuttu máli skoðun hv. þingmanns á þessu.