148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

útlendingar.

42. mál
[12:31]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er þannig, eins og ég nefndi í ræðu minni áðan, að við erum að reyna að setja eitthvað í box sem passar illa í box. Fólk kemur hingað úr misjöfnum aðstæðum og af eins misjöfnum ástæðum og hugsast getur. Fólk sem kemur frá stríðshrjáðum svæðum þarf vissulega ákveðna þjónustu. Við getum þakkað fyrir það, Íslendingar, að þekkja ekki þær raunir á eigin skinni og eiga erfitt með að gera okkur í hugarlund nákvæmlega hvað þarf. En eftir því sem við tökum við fleirum öðlumst við reynsluna smátt og smátt, þannig að það er alltaf að batna.

Það sem mér finnst mikilvægast er að við séum með svo gott móttökukerfi að við þurfum ekkert að stóla mikið á það hvort viðkomandi sé 22 ára eða 16 ára. Mér finnst allt í lagi að einhver sem er 22 ára fái sérstaka þjónustu eða að tekið sé tillit til aðstæðna einstaklinga óháð aldri. Aldurinn er einungis ein breyta, sem vissulega skiptir ægilega miklu máli hér á Íslandi. Þú veist að 17 ára einstaklingur gæti verið með bílpróf og þú veist að tvítugur einstaklingur hefur kannski þroska til að drekka. En hvernig er 18 ára einstaklingur sem að stórum hluta hefur alist upp í stríði í Sýrlandi, hvernig er 22 ára einstaklingur sem hefur alist upp á götunni í Róm? Við getum ekki notað aldur sem mælikvarða á ýmsan þroska fólks, sérstaklega þegar það er svona misjafnt, hvað þá hvaða tegund af þroska, það er náttúrlega afstætt líka og margvíða.

Þannig að þetta er ekki svo einfalt að við getum einfaldlega miðað allt við aldur. Á einhverjum tímapunkti verðum við að gera það vegna þess að við höfum ákveðið sem samfélag að taka sérstakt tillit til barna. Það er sami vandinn með þetta. Þegar svona mikið er í húfi, þegar öll framtíð fólks er í húfi, þá eigum við alltaf að leyfa ungdómnum að njóta vafans og þá að bæta kerfið fyrir þá fullorðnu frekar en að reyna (Forseti hringir.) að sporna gegn því að fólk, sem segist vera yngra en það er, fái hugsanlega meiri þjónustu en það á rétt á.