148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

brottnám líffæra.

22. mál
[14:02]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ólafi Þór Gunnarssyni fyrir bæði umfjöllun hans um málið af mikilli þekkingu sem læknir en ekki síður gagnlegar ábendingar. Ein var sú að það þurfi með einhverjum hætti að taka fram í greinargerð í hvaða tilvikum líffæragjöf komi til greina í tengslum við skilgreiningu á því hvenær um látinn einstakling er að ræða. Ég ætla hér að fara aðeins með greiningu sem er að finna á vef landlæknis sem snýr að þessu máli. Veit þó með vissu að hv. þingmaður er vel að sér í öllum slíkum skilgreiningum, eðli máls samkvæmt, en vil spyrja hvort það sé einhver slík tilvísun sem sé nauðsynleg í greinargerð með frumvarpinu og hv. velferðarnefnd getur þá unnið með það.

Á vef landlæknis er þetta sett fram með þeim hætti og spurt. Þar segir, með leyfi forseta:

„Við hvaða orsakir andláts kemur helst til greina að gefa líffæri?“

„Andlát vegna heiladauða er forsenda þess að unnt sé að nýta líffæri til ígræðslu. Þá er hægt að fjarlægja líffærin áður en blóðrás stöðvast og þau verða fyrir skemmdum. Algengustu orsakir heiladauða eru blæðingar eða æðastífla í heila eða miklir höfuðáverkar sem valda óafturkræfum skemmdum á heilavef.“

Þar er spurt hvort hægt sé að staðfesta heiladauða með vissu:

„Þegar blóðflæði til heilans stöðvast með öllu myndast útbreiddar skemmdir og kallast það ástand heiladauði.“

Ég spyr hv. þingmann hvort það sé eitthvað viðlíka sem hann metur að þurfi að koma fram í greinargerð.