148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

trygging gæða, hagkvæmni og skilvirkni opinberra fjárfestinga.

14. mál
[15:22]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Mjög greinargott svar. Það er nú kosturinn við að setja svona stór umbótamál fram, sem það sannarlega er, í þingsályktun, og leiða málið fram og fela framkvæmdarvaldinu að taka það áfram. Ég get ekki annað en hvatt hv. efnahags- og viðskiptanefnd þegar hún fjallar um málið að taka fyrir þessi hugtök og hugtakanotkun, því að nú liggur fyrir mál í hv. fjárlaganefnd um stofnefnahagsreikninga. Nú ætlum við að fara að eignfæra vegi og stórar fjárfestingarframkvæmdir. Þetta mál fellur mjög vel að því. Ég held að nauðsynlegt sé að svona umbótavinna fari fram. Það er þá ágætt að slík þingsályktunartillaga liggi fyrir þannig að það fái stuðning frá þinginu, það er alla vega ekki verra, fari svo. Þetta er mjög áhugavert mál.

Hv. þingmaður nefndi frekari hugtök, svo ég haldi mig við hugtökin, því að við getum talað um hefðbundna arðsemi af fjármunum og svo nefndi hv. þingmaður hugtak sem er nytsemi. Það geta verið alls konar samfélagslegar ástæður fyrir því að við förum út í fjárfestingar. Ég reikna með að nefndin fjalli um þetta. En ég er ekki með neina sérstaka spurningu í seinna andsvari heldur vil bara taka undir með hv. þingmanni að þetta er stórt (Forseti hringir.) umbótamál. Ég segi það bara að nauðsynlegt er fyrir okkur að fara í gegnum þetta ferli og jafnframt horfa til Norðmanna í þessu. Þeir hafa gert vel á þessu sviði.