148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

notkun og ræktun lyfjahamps.

18. mál
[15:49]
Horfa

Flm. (Halldóra Mogensen) (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og kann að meta spurningarnar líka. Og umræðuna.

Hv. þingmaður spyr: Hver er þörfin? Mig langar þá kannski til að minnast á að t.d. í Ísrael er lyfjahampur notaður fyrir þá sem þjást af krabbameini, krónískum taugaverkjum, krónsjúkdómi, MS, áfallastreituröskun, HIV/AIDS, ristilbólgu, parkinsonveiki, tourette. Þeir eru leiðandi í kannabisrannsóknum, eins og ég minntist á í framsögu minni.

Varðandi ræktunina hugsaði ég mikið um þetta þegar ég var að skrifa þessa þingsályktunartillögu, þ.e. innflutning versus að rækta þetta hérna. Hugsun mín snerist aðallega um að þeir aðilar sem nýta sér þetta sem lyf hafi heimild til að rækta sjálfir heima hjá sér. Það var hugmyndin mín á bak við þetta. Það er gert í mjög mörgum löndum í kringum okkur. Þá er kannski leyft að rækta megi allt að fimm plöntum. Í öðru landi er bara ein planta leyfileg. Þetta fer eftir löndunum hvernig lagaramma þau eru með í kringum þetta. Þá þarf fólk að fá sérstakt leyfi til að rækta.

Svo eru aðrir sem leyfa alls ekki ræktun til persónulegrar notkunar en leyfa hana til fyrirtækja. Þá er misjafnt hvort ríkisstjórnin sjái um þetta eða einkaaðilar sem rækta. Þingsályktunartillagan skilur þetta allt eftir alveg opið fyrir heilbrigðisráðherra að ákveða hvernig sé best að fara að þessu.

Varðandi THC, sem er alveg rétt að er hættulegt efni, er þess virði að minnast á að núna á meðan plantan er ólögleg tíðkast að rækta upp THC-magnið í plöntunum. Þetta fer eftir því hvaða tegund fólk er með. Oft er fólk að fá plöntur með ofboðslega hátt THC-magn sem er stórhættulegt. (Forseti hringir.) En meðan við erum með eftirlit — tími minn er búinn. Ég ætla að koma að því í seinna andsvari.