148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

19. mál
[16:24]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langaði að eiga smá orðastað við hv. þingmann, flutningsmann frumvarpsins, Björn Leví Gunnarsson. Ég hef nefnilega þá skoðun að við eigum ekkert að gera sem í raun og veru gæti frekar takmarkað það hverjir munu bjóðast fram til Alþingis. Mér er það annt um að allir bjóði sig fram til Alþingis að ég hef áhyggjur af því að frumvarp af þessu tagi myndi verða til þess að það myndi draga úr því, hvort sem það væri tímabundið eða til lengri tíma, hverjir það væru sem bjóði sig fram til Alþingis.

Ég er í grundvallaratriðum herfilega ósammála flutningsmönnum frumvarpsins þegar kemur að þessari setningu hér, með leyfi forseta:

„Að mati flutningsmanna gerir ákvæðið að verkum að augljóslega er betra að verða alþingismaður eftir að hafa sinnt störfum fyrir hið opinbera en að koma af hinum almenna vinnumarkaði.“

Mér finnst þetta nú eiginlega slíkur rökfræðilegur útúrsnúningur að ég varð eiginlega að hnýta í það.

Mig langar hins vegar að spyrja hv. flutningsmann: Væri ekki betra ráð að snúa þessu við? Væri ekki bara frekar ráð að víkka þessi réttindi út frekar en að takmarka þau réttindi sem opinberir starfsmenn hafa í þessu tilfelli? Við ættum kannski frekar að reyna að huga að leiðum þar sem við myndum frekar víkka þau út á almenna markaðinn, ekki jafna niður á við, eins og flutningsmenn gera ráð fyrir, heldur jafna upp á við. — Hv. flutningsmaður má flissa með sjálfum sér eins og hann vill og þykir tilhlýðilegt. — Við höfum gert þetta t.d. hvað varðar fæðingarorlof. Við höfum víkkað það út þannig að fólk getur farið úr vinnu og komið aftur eftir fæðingarorlof.

Hefur flutningsmaður engar áhyggjur af því að þetta myndi jafnvel draga úr því hverjir væru tilbúnir að gefa kost á sér til setu á Alþingi og væri þannig lýðræðinu (Forseti hringir.) ekki til heilla?