148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

23. mál
[16:51]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á að þakka fyrir þetta mál.

Ég verð að viðurkenna að ég hafði ekki lesið það fyrr en í dag og ekki kynnt mér það alveg til hlítar fyrir yfirferðina í dag þótt ég hafi rennt yfir það á sínum tíma. Núna þegar ég skoða það aðeins betur get ég ekki annað en verið enn hlynntari því.

Eins og hv. þingmaður nefndi virðist í sumum kimum samfélagsins verulega halla á konur. Einn af þeim hlutum samfélagsins er fjármálageirinn. Annar hluti mannlegs samfélags þar sem er yfirþyrmandi meira af karlmönnum en konum er í fangelsum. Margir gætu haldið að ég væri að grínast, en ég er ekki að því. Það er sumt í mannlegri hegðun sem einhvern veginn virðist vera þannig að karlar ýmist sækjast í það eða einhvern veginn endast meira í því. Og eitt af því er ofbeldisglæpir og fangelsisvist, annað er fjármálageirinn. Mér finnst það svolítið áhugavert. Ég hef lengi velt fyrir mér hvers vegna það sé svo.

Af því að lesa aðeins um þetta, aðallega í fjölmiðlum en líka í samtölum eins og gengur og gerist, hallast ég meira og meira að því að þetta sé áhættusækni. Ég held að það sé eitthvað við karlmenn, ef það eru ekki bara hreinlega hormónarnir, ég veit það ekki, ég er ekki læknir, sem gerir það að verkum að karlmenn sækjast miklu meira í áhættu og konur sýni almennt meiri ábyrgð.

Ekki er löng saga að segja frá því að sú var tíðin að ég var mjög á móti öllum kynjakvótum og einhverjum lagaleiðum til þess að reyna að laga ójafnrétti í samfélaginu. Sennilega hef ég á þeim tíma ábyggilega einhvern tímann kallað mig hreinlega antifemínista. Síðan leið tíminn og maður fór að kynnast þessum málaflokki betur og með tímanum varð ég vissulega femínisti og kalla mig femínista í dag. Síðan á ég einhvern veginn með tímanum erfiðara og erfiðara með það og er farinn að kalla mig bara kvenrembu. Mér finnst einhvern veginn að konur eigi að stjórna hlutum eins og fjármálafyrirtækjum og konur eigi frekar að vera við völd. Það eru ekki endilega femínisk sjónarmið, en þessi svakalega áhættufíkn sem ég sé svo mikið hjá kynbræðrum mínum er ekki endilega góð. Það getur alveg verið mikilvægt að sýna einhvern kjark og hugrekki, en við myndum aldrei segja að við þyrftum að auka við hlut kvenna í fangelsum eða auka hlut kvenna í hraðakstri eða einhverri áhættusækinni hegðun sem er samfélaginu til trafala.

Þegar kemur hins vegar að fjármálakerfinu hvort sem okkur líkar það betur eða verr og hvort sem við viljum bera það saman við hraðakstur eða fangelsi, þá hljótum við að vilja auka hlut kvenna, ef það er þannig að karlmenn sýni af sér óæskilega hegðun af einhverjum ástæðum, hvort sem það eru uppeldisaðstæður eða líffræðilegar ástæður, skiptir í sjálfu sér ekki öllu máli.

Ef við ætlum að ná því markmiði að konur séu jafnsettar körlum í samfélaginu, og ég legg til að það sé sjálfsagt markmið, þá held ég að við verðum að beita lagasetningu og á köflum kynjakvótum. Mér finnst mikilvægt að útfæra þá rétt, hugsa þá til enda, mæla árangurinn af þeim, prófa hvað virkar og hvað virkar ekki. Það sem virkar ekki finnst mér að við eigum að losa okkur við og prófa eitthvað annað í staðinn.

Eftir því sem tíminn líður verður augljósara, alla vega núna í dágóðan tíma, einhverja áratugi, þetta sterka ákall um að konur njóti jafns réttar á við karla í samfélaginu. Fyrst um sinn, náttúrlega fyrir einhverjum tíma síðan, ég ætla ekki að giska á hversu löngum tíma, þótti hugmyndin bara fráleit. Konur voru bara eitthvað öðruvísi en karlar, karlar voru karlar og konur voru konur og börn voru börn og þetta var voða klippt og skorið í gamla daga, í því gamla fáfróða samfélagi. Síðan á einhverjum tímapunkti var farið mikið í að laga lögin þannig að lögin skilgreindu ekki eitthvert brot bara gegn konum eða að karlar nytu einhverra sérstakra forréttinda, eitthvað því um líkt. Ókei, við erum sennilega komin langleiðina þar, ef ekki alla leið í að koma á jafnrétti kynjanna samkvæmt lagabókstafnum sjálfum, svona að mestu leyti með einhverjum undantekningum eflaust.

Hitt er að þetta menningarlega, þessi djúpstæði munur sem birtist í hegðunarmynstri gagnvart ákveðnum málaflokkum er enn til staðar. Mér finnst það hreinlega mjög áhugavert. Þá líka eins og ég sagði oft á sínum tíma og er núna til að gera lítið úr gagnrýnisröddum með réttu held ég, þ.e. að konur þyrftu bara að vera duglegri að gera eitthvað. Þetta sagði maður sjálfur í gamla daga. Það er þessi hugmynd um að til að ná árangri í fjármálageiranum eða einhverju slíku þá ættu konur einhvern veginn að haga sér öðruvísi. Þær ættu bara að vera áhættusæknari, þær ættu að vera djarfari og sterkari og hugrakkari og allt þetta til að herma eftir körlunum sem ná þessum svakalega árangri í þeim geira.

Ég hef tvennt við þetta að athuga. Annað er það að mér finnst það ekki á nokkurn hátt sanngjarnt eða sjálfkrafa skynsamlegt að ætlast til þess að jafnrétti sé einungis náð með því að annað kynið fari að haga sér öðruvísi. Mér finnst það hreinlega segja okkur að ekki sé pláss fyrir tvö kyn, hvað þá fleiri í samfélaginu. Ég bara hafna því að það sé þannig. Það skal vera pláss fyrir konur og fólk af öðrum kynjum í þessum geira. Það bara skal vera að mínu mati.

Við þurfum auðvitað engar skýringar á því, við verðum bara að finna lausnir á því. Kannski þurfum við að skoða skýringar til þess að finna lausnina. Það getur verið. En aðalatriðið að mínu mati er að laga það.

Hitt er síðan líka, eins og kemur fram í greinargerð frumvarpsins, í næstsíðasta málslið í greinargerðinni. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Í raun ætti slík stefna að vera sjálfsögð og eðlileg í ljósi hlutverks lífeyrissjóða enda sýna fjölmargar rannsóknir fram á að fyrirtækjum þar sem jafnvægi er í kynjahlutföllum í stjórn og framkvæmdastjórn vegnar almennt betur.“

Þetta finnst mér áhugavert. Með hliðsjón af því að ofarlega í frumvarpinu, í öðrum málslið greinargerðarinnar, sjáum við að í febrúar 2010–2017 gegndu 80 karlar og einungis átta konur stöðu æðstu stjórnenda viðskiptabanka og fleiri tegunda fyrirtækja sem eru nefnd.

Þetta segir mér, ég trúi báðum staðhæfingum, að það hverjir veljast til forystu í svona fyrirtækjum eru ekki endilega þeir sem láta fyrirtækjunum vegna hvað best. Og vissulega ekki þegar kemur að samfélagslegri ábyrgð. Mér fannst það áberandi eftir hrun að þegar við vorum að tína saman ýmis nöfn og andlit sem ég ætla ekki að gera hér og nú, orðið langt síðan alla vega, en maður sá bara hvað þetta hrun var karllægt fyrirbæri. Ég segi það stundum í hálfkæringi en samt í hálfum hálfkæringi: Hvað olli hruninu þegar allt kemur til alls? Við erum öll með milljón ástæður fyrir því. Þegar allt kemur til alls, testósterón. Endalaus djörfung, endalaust svokallað hugrekki, sem frá öðru sjónarhorni séð er bara fífldirfska, karlmennska, eitruð karlmennska stundum sögð.

Mig langar ekki til þess að konur verði eitthvað duglegri við að haga sér þannig. Mig langar til þess að samfélagið þróist þannig að stofnanir á borð við þær sem eru í fjármálageiranum drífi sig ekki áfram á þessu karllæga hugarfari, þessari áhættusækni. Ég held ekki að það sé gott.

Mig langar aðeins fjalla um orðaskipti tveggja hv. þingmanna sem töluðu á undan, ekki til að mótmæla neinu af því sem þeir sögðu, en það vakti mig til umhugsunar. Vegna þess að stundum, kannski ekki mikið lengur, en alla vega hefur maður heyrt í gegnum tíðina um einhverjar svona reglur sem þrengja þetta niður, það gæti einhvern veginn komið niður á fjárhagslegum hagsmunum einhvers staðar, einhver græði ekki jafn mikinn pening, eitthverju fyrirtæki gangi ekki jafn vel og eitthvað svoleiðis.

Þá er mér svolítið hugsað til — þetta hljómar dramatískt, en hlýðið aðeins á — borgarastríðsins í Bandaríkjunum. Þar var fólk að rífast um þrælahald. Bara svo ég segi það að borgarastríðið snerist í meginatriðum um þrælahald, fyrir alla sem vilja eitthvað draga úr því, það var flóknara líka, en aðallega snerist þetta um hvort þrælahald ætti að vera heimilt í nýju fylkjunum sem voru þá á leiðinni inn í Bandaríkin. Það voru raunverulegar efnahagslegar ástæður á bak við það að sumt fólk vildi ekki afnema þrælahald, það voru raunverulegar efnahagslegar forsendur á bak við þá skoðun. Myndum við nokkurn tímann taka undir þá skoðun í dag? Ég held ekki.

Það kostar pening að frelsa fólk, að koma á jafnrétti í samfélaginu. Það verður bara að hafa það. Þetta eru bara engin rök. Við eigum að ná þessu markmiði. Ég tel það vera í rauninni ákveðna grunnforsendu þess að við getum þroskast hreinlega sem dýrategund. Við erum svolítið föst í nokkrum frumstæðum hvötum. Við verðum auðveldlega reið. Við viljum auðveldlega hefna. Það kemst í tísku að hata þegar allt fer í steik. Við erum frumstæð að mörgu leyti.

Eitt af því sem mér finnst einkenna mjög mikið frumstæði samfélagsins, enn sem komið er, er þessi svakalegi munur sem við sjáum í sumum geirum samfélagsins þegar kemur að kynjunum, sér í lagi milli karla og kvenna, en líka þegar kemur að öðrum kynjum. Það birtist í hraðakstri, í fangelsum og af einhvers konar kaldhæðni örlaganna, í fjármálageiranum.

Hvað sem því líður styð ég þetta mál og þakka fyrir framlagningu þess og vil reyndar við tækifæri hrósa þessum ágæta flokki, Viðreisn, fyrir að vera mjög virkur í þessum málaflokki. Maður sér að það vekur athygli. Mér þykir sá flokkur eigi hrós skilið fyrir það góða verk sem hann er að vinna í málaflokknum. Ég hugsa að ég komi til með að styðja önnur mál, alla vega sem varða sama málaflokk, frá þeim flokki sem leggur fram svona prýðileg mál.