148. löggjafarþing — 21. fundur,  5. feb. 2018.

mótun fjármálakerfisins og sala Arion banka.

[15:08]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Ég vek athygli forseta á því að það komu engin svör. Hæstv. ráðherra talar á almennum nótum um að gott sé að eiga samtal við hina og þessa og velta hlutunum fyrir sér. Þessi mál hafa verið til umræðu meira en nokkur önnur mál í áratug. Það er óskiljanlegt ef stjórnmálaflokkum hefur ekki tekist að móta sér stefnu á þessu sviði á þeim tíma. Að mynduð sé ríkisstjórn við þessar aðstæður án þess að hafa hugmynd um hvað hún ætli að gera í málinu annað en að láta skrifa einhverja hvítbók og velta hlutunum svo fyrir sér, hvítbók sem ég veit ekki til að nokkur vinna sé byrjuð við.

Á meðan eru menn að missa þetta úr höndunum. Það mun ekki skipta miklu máli að velta fyrir sér einhverri hvítbók þegar aðrir eru búnir að ná fullkomnum tökum á fjármálakerfinu og móta það eftir sínu höfðu, eins og þessir aðilar, vogunarsjóðirnir, eru að gera núna í skjóli þessarar ríkisstjórnar.

Því ítreka ég spurningu mína, herra forseti: Mun ríkisstjórnin afsala sér forkaupsrétti af bréfum í Arion banka? Mun hún selja vogunarsjóðum þau 13% sem ætlast er til að fá frá ríkisstjórninni?