148. löggjafarþing — 21. fundur,  5. feb. 2018.

svör ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum.

[15:55]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegur forseti. Það er greinilega mikill misskilningur hér á ferðinni og kannski ekki nema von því að Sjálfstæðismenn eru eðlilega ruglaðir yfir því í hvaða ríkisstjórn þeir eru á hverjum tíma. Ekki hefur þeim gengið það vel að tolla í ríkisstjórn undanfarin ár.

Við erum að tala um núverandi ríkisstjórn hér í dag, núverandi ríkisstjórn og þær yfirlýsingar sem þar hafa verið gefnar, og líka þá stefnu sem virðist vera uppi á borðinu, þ.e. að neyta ekki þessa forkaupsréttar. Ef hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar telur að á síðasta kjörtímabili hafi öllu þessu verið svarað er væntanlega ekkert meira um málið að segja, en það sem við erum hins vegar að benda á er að það er rétt að taka málið upp að nýju í ljósi þess hver stefna þessarar ríkisstjórnar er, þessarar nýjustu sem hv. þingmaður er fylgjandi. Sósíalistar leiða þessa ríkisstjórn í dag og það kann að reynast Sjálfstæðisflokknum þungbært að vita til þess, en Sjálfstæðismenn verða samt að fara eftir leikreglunum og spila með þinginu. Það er það sem við erum að kalla eftir.