148. löggjafarþing — 21. fundur,  5. feb. 2018.

langtímaorkustefna.

[16:28]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem ríkisstjórn á Íslandi vill vinna að orkustefnu. Þáverandi iðnaðarráðherra skipaði síðla árs 2009 stýrihóp til að vinna heildstæða orkustefnu fyrir Ísland. Skýrsla stýrihópsins fór í opið umsagnarferli. Fjölmargar umsagnir bárust frá einstaklingum, fyrirtækjum og stofnunum, sem stýrihópurinn tók tillit til áður en skýrsla hópsins var afhent iðnaðarráðherra og þingmönnum. Skýrslan var rædd á Alþingi fyrir réttum sex árum, í febrúar árið 2012.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá því í maí 2009 segir, með leyfi forseta:

„Mótuð verði heildstæð orkustefna sem miði að því að endurnýjanlegir orkugjafar leysi innflutta orku af hólmi. Við orkuframleiðslu með vatnsafli og jarðvarma verði gætt varúðar- og verndarsjónarmiða. Orkustefnan styðji við fjölbreytt atvinnulíf með áherslu á uppbyggingu vistvæns hátækniiðnaðar. Í orkustefnunni verði sjálfbær nýting höfð að leiðarljósi sem forðast m.a. ágenga nýtingu á jarðhitasvæðum.“

Mörg þjóðríki sem við berum okkur saman við hafa sett sér orkustefnu. Í flestum löndum er fjallað um þrjá meginþætti, þ.e. orkuöryggi, skipulag orkumarkaða og samspil orku- og umhverfismála þar sem höfuðáhersla er lögð á að auka framleiðslu endurnýjanlegrar orku og draga úr orkuframleiðslu með jarðefnaeldsneyti og þannig draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Hér á landi er jafnframt mikilvægt að fjalla um fjórða þáttinn, sem er nýting orkuauðlinda til samfélagslegs ábata í víðu samhengi, t.d. sem grunns að fjölbreyttu atvinnulífi og hvernig arði af sameiginlegum auðlindum verði skilað til þjóðarinnar.

Grunnstefið í tillögunum þá var að orkubúskap Íslands verði hagað með sjálfbærum hætti samfélaginu og almenningi til hagsbóta. Það er von mín að orkustefna sú sem nú á að vinna taki mið af skýrslunni sem við ræddum fyrir sex árum og taki líkt og þá mið af því að almenningur njóti í auknum mæli arðs af (Forseti hringir.) auðlindum í eigu þjóðarinnar. Mér þykir þó, rétt eins og hv. þm. (Forseti hringir.) Birgi Þórarinssyni, harla ólíklegt að ríkisstjórnarflokkarnir komi sér saman um slíka stefnu.